Innlent

Ólafur Ragnar nýtur langmests fylgis

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Ólafur Ragnar Grímsson er með yfir 50 prósenta fylgi.
Ólafur Ragnar Grímsson er með yfir 50 prósenta fylgi. Vísir/Ernir
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, nýtur langmests stuðnings landsmanna, samkvæmt nýrri könnun MMR, og mælist með 52,6 prósenta fylgi. Andri Snær Magnason er sá sem næst komst Ólafi og mælist með 29,4 prósenta fylgi. Halla Tómasdóttir mældist með 8,8 prósenta fylgi en fylgi annarra frambjóðenda mældist undir 2 prósentum.

Þegar fylgi þriggja efstu frambjóðendanna er skoðað eftir samfélagshópum kemur í ljós að Ólafur Ragnar Grímsson hefur hlutfallslega meira fylgi á landsbyggðinni, á meðan Andri Snær Magnason hefur hlutfallslega hærra fylgi á höfuðborgarsvæðinu. Fylgi Höllu Tómasdóttur mældist einnig meira á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni.



Eins hefur Ólafur Ragnar Grímsson hlutfallslega meira fylgi meðal þeirra sem hafa minni menntun og lægri tekjur, en Andri Snær Magnason hefur hlutfallslega meira fylgi meðal þeirra sem eru tekjuhærri og með aukna menntun, en fólk í sérfræðistörfum er líklegast til að vera fylgjendur Andra Snæs Magnasonar.

Halla Tómasdóttir hefur einnig töluvert meira fylgi meðal kvenna auk þess sem stjórnendur og æðstu embættismenn eru hlutfallslega líklegri til að vera fylgjendur Höllu í samanburði við fólk í annars konar störfum, að því er segir í könnun MMR.

Alls tóku 953 þátt í könnuninni sem gerð var dagana 22. til 26. apríl síðastliðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×