Handbolti

Haukarnir hita upp fyrir úrslitakeppnir handboltans | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vísir/Ernir
Haukar mæta í báðar úrslitakeppnir handboltans í ár sem deildarmeistarar en bæði karla- og kvennalið félagsins urðu í efsta sæti í deildarkeppninni á þessu tímabili. Úrslitakeppnin er framundan og stuðningsmenn Hauka eru að sjálfsögðu bjartsýnir eftir gott gengi liðanna í vetur.

Haukarnir verða tvöfaldir Íslandsmeistarar ef að liðin vinna alla heimaleiki sína í úrslitakeppninni í ár. Bæði lið töpuðu bara einum heimaleik í deildinni og unnu saman 23 af 27 leikjum á Ásvöllum.

Þetta er í fyrsta sinn frá árinu 2009 sem sama félag verður deildarmeistari í karla- og kvennaflokki en þá náðu Haukarnir þessu líka.

Engi öðru félagi hefur tekist að verða deildarmeistari í karla- og kvennaflokki á sama tímabili en Haukarnir náðu því nú í fjórða sinn (2002, 2005, 2009 og 2016).

Haukarnir hafa þó bara einu sinni unnið báða Íslandsmeistaratitlana eftir að hafa heimavallarrétt í báðum meistaraflokkunum en það var árið 2005. Annað liðið vann þó í hin tvö skiptin, konurnar 2002 og karlarnir 2009.

Átta liða úrslit úrslitakeppni Olís-deildanna hefjast í vikunni, stelpurnar byrja á móti Fylki í kvöld en strákarnir á móti Akureyri á morgun.

Haukar TV hefur verið duglegt að sýna leiki liðsins beint á netinu og svo verður einnig í úrslitakeppninni. Fyrstu heimaleikir liðanna verða í beinni á Haukar TV, leikur Hauka og Fylkis klukkan 19.30 í kvöld og leikur Hauka og Akureyrar klukkan 19.30 á morgun.

Haukarnir hita upp fyrir úrslitakeppnirnar með skemmtilegu myndbandi þar sem bæði liðin eru í aðalhlutverki. Það er hægt að sjá myndbandið hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×