Fótbolti

Luis Enrique, þjálfari Barcelona: Þetta er 99,9 prósent mér að kenna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi gengur af velli.
Lionel Messi gengur af velli. Vísir/Getty
Luis Enrique, þjálfari Barcelona, var að vonum svekktur eftir að liðið datt út úr Meistaradeildinni í gær og talaði um að liðið sitt væri í holu.

Barcelona tapaði 2-0 í seinni leiknum á móti Atletico Madrid í átta liða úrslitunum og þar með 3-2 samanlagt. Atletico Madrid komst í undanúrslitin ásamt Bayern München, Manchester City og Real Madrid.

„Leikmenn eru mjög leiðir. Við náðum ekki fram okkar besta þessa dagana. Það voru allir spenntir fyrir því að reyna að vinna Meistaradeildina aftur en það var ekki í spilunum fyrir okkur í ár," sagði Luis Enrique en liðið vann Meistaradeildina í fyrra.

„Það fer ekkert á milli mála að við erum í holu. Þetta er 99,9 prósent mér að kenna en ekki hundrað prósent. Ég er þjálfarinn og ber mesta ábyrgðina," sagði Luis Enrique.

Þetta er aðeins í þriðja sinn á síðustu ellefu árum þar sem Barcelona kemst ekki í undanúrslit Meistaradeildarinnar. Liðið er enn með þriggja stiga forystu á Atletico Madrid á toppi spænsku deildarinnar en hefur tapað þremur af síðustu fjórum leikjum sínum í öllum keppnum.

„Þetta var leikurinn sem við bjuggumst við en kannski bjóst ég þó ekki við að Atletico myndi spila svona aftarlega. Þetta var ekki okkar besti dagur," sagði Luis Enrique sem vann þrennuna á sínu fyrsta tímabili í fyrra og á enn möguleika á að vinna tvo titla á tímabili númer tvö þrátt fyrir þetta tap í gær.

„Við verðum að halda ró okkar og hugsa um það að við eigum enn möguleika á að vinna tvo titla. Það geta allir komið með skýringar en ég þarf að greina leikinn til að koma með mína," sagði Luis Enrique.

Luis EnriqueVísir/Getty
Fyrsta markið Annað markið

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×