Innlent

Linda fer ekki í forsetann: „Rétti tíminn ekki kominn fyrir mig“

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Linda Pétursdóttir rak Baðhúsið um nokkurt skeið.
Linda Pétursdóttir rak Baðhúsið um nokkurt skeið. Vísir
Linda Pétursdóttir, fegurðardrottning og athafnakona, hyggst ekki gefa kost á sér til embættis forseta Íslands. Þetta kemur fram á vefsíðu hennar.

„Síðastliðnar vikur og mánuði hef ég fundið fyrir stuðningi, hvatningu og velvild í minn garð varðandi að gefa kost á mér í embætti forseta Íslands.  Íslenskir og alþjóðlegir fjölmiðlar hafa mikið haft samband við mig vegna þessa og sýnt ákvörðun minni áhuga,“ skrifaði Linda. Hún segist hafa rætt málið við fjölskyldu, vini og vandamenn.

„Ég ákvað að gefa þessu góðan tíma, velta málum fyrir mér og taka ákvörðun í framhaldi en hét sjálfri mér jafnframt því að svarið yrði að koma frá hjartanu. Mín niðurstaða er sú að þrátt fyrir að vera alvön í erlendum samskiptum og þekkja bæði til búsetu í borg og bæ þá tel ég mig enn eiga ýmislegt eftir ólært til að geta orðið góður forseti.  Ég tel mjög mikilvægt að þekkja betur til stjórnskipan og stjórnsýslu landsins.  Því er ákvörðun mín nú sú að rétti tíminn sé ekki kominn fyrir mig og ætla ég því ekki að bjóða mig fram í embættið núna.“

Linda gengur því ekki í hóp þeirra sextán sem þegar hafa boðað framboð til forseta.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×