Körfubolti

Ótrúlega vel heppnað aprílgabb hjá leikmönnum Golden State | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andre Iguodala, leikmaður NBA-meistara Golden State Warriors, fór illa með liðsfélaga sinn Festus Ezeli í tilefni af 1. apríl og myndbandið fór á flug á netinu.

Iguodala lét Festus Ezeli halda að Golden State Warriors væri búið að láta Ezeli fara frá liðinu en þessi öflugi miðherji hefur verið mikið meiddur á leiktíðinni og lék síðast með liðinu 25. janúar.

Iguodala sá svo til þess að Festus Ezeli var að hlusta á útvarpið í bíl þegar það kom frétt um að Golden State Warriors væri búið að segja upp samningi sínum við Festus Ezeli.

Í viðbót við það fékk Andre Iguodala liðsfélaga þeirra í Warriors-liðinu með sér í aprílgabbið og hinir leikmenn Golden State Warriors fóru í framhaldinu að senda Festus Ezeli smáskilaboð þar sem þeir þökkuðu fyrir samstarfið og að þeim þótti leiðinlegt að heyra þessar fréttir.

Festus Ezeli vissi ekki hvað hann átti að halda og það var greinilega farið að fara um stóra manninn þegar Andre Iguodala birtist hlæjandi og kallaði: „1. apríl."

Festus Ezeli hefur leikið með Golden State liðinu frá 2012 en hann var með 7,5 stig, 5,9 fráköst og 1,2 varið skot að meðaltali í leik áður en hann meiddist.

Það má sjá myndbandið með hrekknum sem og viðbrögð Festus Ezeli í spilaranum hér fyrir ofan.

Golden State Warriors er með langbesta árangurinn í NBA-deildinni í körfubolta en liðið vann NBA-titilinn síðasta sumar og hefur unnið 68 af 75 leikjum í titilvörn sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×