Körfubolti

Frá Havaí í HR og svo til hjálpar Haukum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Shanna á ferðinni gegn Grindavík á dögunum.
Shanna á ferðinni gegn Grindavík á dögunum. vísir/ernir
Deildarmeistarar Hauka í kvennakörfunni grófu sér djúpa holu í undanúrslitaeinvígi sínu á móti Grindavík með því að tapa tveimur fyrstu leikjunum. Það var allt annað að sjá til liðsins í síðasta leik og þar munaði miklu um innkomu 28 ára stelpu frá Havaí.

Shanna Dacanay er langt frá því að vera dæmigerður bandarískur leikmaður í íslenska körfuboltanum og í raun má deila um það hvort hún teljist hreinlega með sem slíkur. Shanna kom nefnilega ekki til Íslands til að spila körfubolta heldur til að læra meira um endurnýjanlega orku og sækja sér meistaranám í HR.

„Þetta er mjög óvænt ævintýri fyrir mig en ég er jafnframt mjög þakklát fyrir þessa reynslu,“ segir Shanna Dacanay um komu sína til Íslands.

Þrjár vikur að átján mánuðum

„Ég kom til Íslands í júlí 2015 og var þá að elta ástríðu mína varðandi endurnýjanlega orku. Ég mætti á þriggja vikna námskeið hjá Háskólanum í Reykjavík. Ég hafði gaman af náminu, naut þess að vera á Íslandi og kunni svo vel við fólkið á Íslandi að ég greip tækifærið þegar það opnaðist möguleiki fyrir mig að vera lengur,“ sagði Shanna. Hún er í meistaranámi í sjálfbærri orkuverkfræði (e. sustainable energy engineering). „Ég er að læra allt um jarðhitaorku og Ísland er fullkominn staður fyrir það nám,“ segir Shanna.

„Þetta áttu bara að vera þrjár vikur á Íslandi en núna verða þetta átján mánuðir,“ segir Shanna. Bróðir Emil Barja, fyrirliða karlaliðs Hauka, hafði klárað sama nám og Shanna í Háskólanum í Reykjavík. „Ég forvitnaðist um það hjá honum hvort það væri einhver leið fyrir mig til að komast í körfubolta,“ segir Shanna og hann benti henni á að fara í Hauka og hafa samband við einhverja sem hét Helena. „Ég vissi ekki þá hver hún var,“ segir Shanna hlæjandi.

Eins og fjölskylda hennar í dag

Shanna spilaði körfubolta, bæði í menntaskóla á Havaí sem og með Washington University í 3. deild háskólaboltans í Bandaríkjunum. „Við komumst í úrslitaleikinn á lokaárinu mínu en töpuðum,“ segir Shanna sem útskrifaðist árið 2009.

„Haukastelpurnar buðu mér að vera með og ég er svo þakklát fyrir að fá að vera hluti af liði á ný. Ég fæ að spila körfubolta á ný sem er íþrótt sem ég elska. Haukarnir eru eins og fjölskyldan mín í dag,“ segir Shanna. Hún þurfti samt að vera þolinmóð því hún hefur ekki fengið mikið af mínútum. „Ég mæti bara á Ásvelli og er himinlifandi með að fá bara að æfa með stelpunum. Ég fæ að spila körfubolta á hverjum degi og með frábærum liðsfélögum. Þessar stelpur eru orðnar góðir vinir mínir núna,“ segir Shanna.

Með strætó á æfingar

Hún er bíllaus og tekur oftast strætó á æfingar. „Stundum fæ ég far á æfingar með Helenu, Pálínu eða Auði,“ segir Shanna. Hún býr á Havaí þegar hún er ekki á Íslandi og þar er fjölskylda hennar. Hún reynir að vera í samskiptum við fjölskylduna sem er hinum megin á hnettinum.

„Ég tala mikið við fjölskyldu mína en það er tíu tíma mismunur. Þegar þau er að enda daginn sinn þá er minn að byrja,“ segir Shanna sem hefur ferðast mikið um Ísland. „Ég mun alltaf getað talað vel um Ísland,“ segir Shanna.

Haukar voru 2-0 undir í einvíginu og 10-7 undir í leiknum þegar Shanna kom inn á eftir rúmlega sex mínútna leik. Þegar hún settist á bekkinn aftur var staðan orðin 26-12. Haukarnir höfðu unnið mínúturnar átta 19-2. Eftir það voru Haukarnir með örugg tök á leiknum og unnu á endanum stóran sigur

„Við urðum að spila okkar besta leik þetta kvöld ef við ætluðum að fá fleiri leiki í vetur. Ég reyndi að leggja mitt af mörkum og gera mitt besta. Ég ætlaði að vera ákveðin og spila smitandi vörn. Ég hef reynslu frá ferli mínum og reyni að minna þessar ungu stelpur á hvað þær geta gert,“ segir Shanna.

Mamman sú jákvæðasta

Þjálfari og leikmenn liðsins segja Shönnu koma með mjög jákvæða strauma inn í liðið. „Ég reyni alltaf að vera jákvæð og ég lærði það af mömmu minni. Hún er jákvæðasta manneskja sem ég þekki,“ segir Shanna af einlægni.

Haukar eru enn undir í einvíginu og verða að vinna í Grindavík í kvöld ef þær ætla að fá oddaleik og sleppa við sumarfrí. Góð innkoma Shönnu í síðasta leik ætti að kalla á fleiri mínútur í framhaldinu.

„Það er ekkert öruggt að ég fái að spila meira í næsta leik en ég verð tilbúin ef það er þörf fyrir mig. Ég mun gefa allt mitt eins og síðast,“ segir Shanna.

„Það yrði stórkostlegt að vinna Íslandsmeistaratitilinn með liðinu en það er löng leið eftir og eins og staðan er núna þá erum við bara öruggar með að fá einn leik til viðbótar. Við ætlum að undirbúa okkur eins vel og hægt er og spila með hjartanu á morgun (í kvöld). Ég hef trú á þessu liði,“ segir Shanna að lokum. Leikur Grindavíkur og Hauka hefst klukkan 19.15 í Grindavík í kvöld.

Þjálfarinn ánægður

Ingvar Þór Guðjónsson, þjálfari Haukaliðsins, er ánægður með Shönnu sem hefur verið í kringum Haukaliðið frá því síðasta haust. Shanna fékk ekki keppnisleyfi fyrr en um áramót en þá voru Haukarnir búnir að semja við Chelsie Schweers.

„Hún var ekki með leikheimild fyrir áramót. Um leið og karlaliðið skiptir um Kana og við tókum Chelsie þá datt hennar leikheimild inn. Hún hafði því takmarkaðar mínútur á meðan Chelsea var með okkur. Hún er fyrst og fremst hér á landi af því að hún er í meistaranámi í HR,“ sagði Ingvar.

Haukar létu Chelsea fara og fengu sér ekki annan bandarískan atvinnumann. Shanna kom þó ekki strax inn í Haukaliðið af fullum krafti.

„Eftir að Chelsea fór þá fór hún í smá ferðalag og var að gera einhverja auglýsingu fyrir 66°Norður uppi á Langjökli. Svo kom hún inn og er búin að vera á fullu með okkur,“ segir Ingvar og hann hrósar henni mikið.

„Hún er ofboðslega vel liðin innan liðsins og þessi stelpa er alveg yndisleg. Þetta er jákvæðasta og lífsglaðasta stelpa sem maður kynnist. Það er frábært að fá slíkan leikmann inn í liðið og hún var frábær í síðasta leik. Þetta er stórkostlegur karakter,“ segir Ingvar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×