Körfubolti

Stelpurnar fara af stað í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gunnhildur Gunnarsdóttir hjá Snæfelli, Guðbjörg Sverrisdóttir hjá Val, Íris Sverrisdóttir hjá Grindavík og Helena Sverrisdóttir hjá Haukum.
Gunnhildur Gunnarsdóttir hjá Snæfelli, Guðbjörg Sverrisdóttir hjá Val, Íris Sverrisdóttir hjá Grindavík og Helena Sverrisdóttir hjá Haukum. Vísir/Ernir
 Úrslitakeppni Domino’s deildar kvenna hefst í kvöld með tveimur leikjum, annar er á heimavelli deildarmeistara Hauka (á móti Grindavík) en hinn á heimavelli bikarmeistara Snæfells (á móti Val). Báðir leikir hefjast kl. 19.15.

Flestir búast við því að Haukar og Snæfell mætist í lokaúrslitunum en fyrst þurfa liðin þó að vinna þrjá leiki á móti Grindavík og Val.

Grindavíkurkonur hafa þegar slegið deildarmeistara Hauka út úr einni keppni í vetur (8 liða úrslit bikarsins) og tryggðu sér sæti í úrslitakeppninni með sannfærandi útisigri á Keflavík.

Haukarnir hafa ekki tapað leik síðan þeir skiptu út einum þjálfara sínum og létu hina bandarísku Chelsea Schweers fara. Haukaliðið kemur inn í úrslitakeppnina á tíu leikja sigurgöngu.

Valskonur hafa verið í mikilli sókn eftir áramót en þær hafa hins vegar tapað ellefu leikjum í röð á móti Snæfelli á Íslandsmóti eða í bikar, nú síðast í lokaumferð deildarkeppninnar fyrir rúmri viku.

Snæfellsliðið hefur ekki spilað eins vel eftir að bikarinn kom í hús og missti deildarmeistaratitilinn til Hauka en í kvöld byrjar ný keppni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×