Innlent

Lýðræðisumræðan ýtir við forsetaframbjóðendum

Höskuldur Kári Schram skrifar
Bessastaðir
Bessastaðir
Tólf einstaklingar hafa nú lýst því yfir að þeir ætli að gefa kost á sér í embætti forseta Íslands og hafa aldrei verið fleiri. Í síðustu forsetakosningum voru frambjóðendurnir sex og árið 1996 voru þeir fimm en einn dró framboð sitt til baka.

Frestur til að skila inn framboði ásamt meðmælalista rennur út 20. maí næstkomandi og því er ekki útilokað að enn fleiri eigi eftir að bætast í hópinn.

Eva Heiða Önnudóttir nýdoktor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands segir erfitt að nefna eina skýringu á þessum aukna fjölda frambjóðenda.

„Undanfarin ár hefur verið mikil umræða um lýðræðiskerfið á Íslandi t.d. með stjórnarskrármálinu osfrv. Það gæti mögulega hafa vakið kjósendur og frambjóðendur til umhugsunar um hvernig forsetaembætti við viljum sjá og hvern við viljum sjá í embættinu,“ segir Eva.

Hún segir að þeir frambjóðendur sem nú þegar hafa stigið fram eigi það sameiginlegt að vilja vera sameiningartákn frekar en pólitískur forseti. 

„Þetta eru allt frambjóðendur sem eru í einhvers konar fegurðarsamkeppni að þeim ólöstuðum. Það hefur enginn komið fram sem er svona afgerandi pólitískur,“ segir Eva.

Hún segir að pólitískur frambjóðandi gæti haft veruleg áhrif á það hvernig kosningabaráttan komi til með að þróast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×