Erlent

Allir unnu nema Kasich

Samúel Karl Ólason skrifar
Hillary Clinton var ánægð með sigurinn í Arizona.
Hillary Clinton var ánægð með sigurinn í Arizona. V'isir/Getty
Donald Trump og Hillary Clinton unnu mikilvæga sigra í kapphlaupinu að Hvíta húsinu í nótt. Þrátt fyrir sigra þeirra í Arizona, sýndu andstæðingar þeirra að keppnin er ekki búin enn. Bernie Sanders vann í bæði Utah og Idaho og Ted Cruz vann í Utah.

Þrátt fyrir að miklu fjármagni hafi verið varið í neikvæðar auglýsingar gegn Trump á síðustu vikum,virðist það ekki draga verulega úr velgengni hans.

Hillary Clinton er nú komin með 1.711 kjörfulltrúa og Sanders er með 939. Til að fá tilnefningu Demókrata þarf helminginn af 4.765 fulltrúum.

Hjá Repúblikönum er Donald Trump efstur með 741 fulltrúa og Ted Cruz er með 361. John Kasich er með 145. Til að hljóta tilnefningu Repúblikana þarf helminginn af  2.472 fulltrúum. Svokallaðir ofurfulltrúar eru taldir með.

Árásirnar í Brussel áberandi

Forvalið í ríkjunum þremur fór fram á sama degi og umfangsmiklar hryðjuverkaárásir voru gerðar í Brussel. Frambjóðendurnir tjáðu sig um árásirnar og notuðu þær til þess að skjóta á Donald Trump.

Clinton sagði árásirnar sýna fram á hve mikið væri í húfi í forvalinu.

„Við byggjum ekki veggi og snúum ekki bakinu við bandamönnum okkar. Við getum ekki kastað því sem við vitum að virkar og byrjað að pynda fólk.“

Ted Cruz sagði að Trump hefði ekki nægilega þekkingu til að vera forseti. Þá kallaði Cruz eftir því að lögregla vaktaði hverfi múslima í Bandaríkjunum sérstaklega. Ummæli hans hafa orðið fyrir mikilli gagnrýni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×