Körfubolti

Pálína deildarmeistari í 200. sigurleiknum sínum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pálína Gunnlaugsdóttir, til hægri, lyftir hér deildarmeistarabikarnum ásamt fyrirliða Haukaliðsins, Auði Ólafsdóttur.
Pálína Gunnlaugsdóttir, til hægri, lyftir hér deildarmeistarabikarnum ásamt fyrirliða Haukaliðsins, Auði Ólafsdóttur. Vísir/Anton
Pálína Gunnlaugsdóttir og félagar hennar í Haukum tryggðu sér í gær deildarmeistaratitilinn og heimavallarétt út úrslitakeppnina með sigri á Hamar í lokaumferð Domino´s deildar kvenna í körfubolta í gær.

Þetta var merkilegur sigur fyrir Pálínu sem var þarna í tvö hundraðasta skiptið í sigurliði í deildarkeppninni.

Pálína sem var að spila sinn 280. deildarleik hefur nú fagnað sigri í 71 prósent leikja sinna í efstu deild á Íslandi.

Pálína lét sér nægja að skora bara 3 stig í leiknum en hún var einnig með sex stoðsendingar og sex fráköst. Pálína skoraði 12,0 stig að meðaltali í 24 deildarleikjum tímabilsins.

Haukaliðið vann 22 af 24 deildarleikjum sínum í vetur og er þetta fjórða tímabilið sem Pálína nær því að vera tuttugu sinnum í sigurliði á einu tímabili. Því náði hún einnig með Keflavík 2007-08 (20 sigurleikir), 2011-12 (21) og 2012-13 (23).

Pálína hefur spilað 99 deildarleiki með Haukum og fagnað sigri í 72 þeirra sem gerir 73 prósent sigurhlutfall í Haukabúningnum.

Pálína vann 102 af 132 leikjum sínum með Keflavíkurliðinu (77 prósent) og 25 af 48 leikjum sínum með Grindavík (52 prósent).

Pálína varð þarna deildarmeistari í sjötta sinn á ferlinum en hún vann deildarmeistaratitilinn einnig með Haukum 2006 og 2007 og svo með Keflavíkurliðinu 2008, 2012 og 2013.


Tengdar fréttir

Hefur aldrei áður gerst í sögu úrslitakeppni kvennakörfunnar

Keflavíkurkonum tókst ekki að tryggja sér sæti í úrslitakeppni kvenna í körfubolta í gærkvöldi því tap á heimavelli á móti Grindavík þýddi að Grindavíkurkonur höfðu tekið fjórða og síðasta sætið í úrslitakeppni Domino´s deildar kvenna í ár.

Helena: Mjög gott eftir alla dramatíkina

Helena Sverrisdóttir segir að allir leikmenn hafa náð að stíga upp eftir að Chelsie Schweers fór frá Haukum, sem urðu deildarmeistarar í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×