Erlent

Germanwings skýrslan: Lagt til að slaka á trúnaði um heilsufar flugmanna

Bjarki Ármannsson skrifar
Allir 150 um borð fórust með vélinni.
Allir 150 um borð fórust með vélinni. Vísir/AFP
Rannsóknarnefnd í Frakklandi sem rannsakaði hrap farþegaflugvélar Germanwings í mars í fyrra leggur til að slakað verði á trúnaði um heilsufar flugmanna.

Aðstoðarflugmaður flugvélarinnar, Andreas Lubitz, hrapaði flugvélinni viljandi í frönsku ölpunum hinn 24. mars á síðasta ári með þeim afleiðingum að allir 150 um borð fórust. Læknir hans hafði hvatt hann til að leita sér aðstoðar geðlækna nokkrum vikum áður en yfirmenn flugfélagsins voru aldrei látnir vita af því vegna trúnaðar á milli læknis og sjúklings.

Rannsóknarnefndin leggur til að trúnaðarlæknum flugmanna beri að koma upplýsingum sem þessum til yfirmanna flugfélaga.

Hægt er að lesa skýrslu rannsóknarnefndarinnar á ensku í viðhengi við fréttina. Í henni kemur einnig fram að fjórir læknar skrifuðu upp á fimm veikindavottorð fyrir Lubitz á um mánuði, þar af þrjú sem voru aldrei send til flugfélagsins. Skrifað var upp á síðasta vottorðið 18. mars.

Nefndin leggur ekki til neinar breytingar á reglum um flugstjórnarklefa í skýrslunni. Lubitz tókst að læsa flugstjóra vélarinnar út úr flugstjórnarklefanum með læsingum sem eiga að koma í veg fyrir að aðrir um borð geti rutt sér leið inn og tekið við stjórn vélarinnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×