Enski boltinn

Manchester United sleppur | Ekki refsað af UEFA

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hillsborough harmleikurinn.
Hillsborough harmleikurinn. Vísir/Getty
Manchester United verður ekki refsað af Knattspyrnusambandi Evrópu vegna framkomu stuðningsmanna félagsins í fyrri leiknum á móti Liverpool í sextán liða úrslitum Evrópudeildar UEFA.

Stuðningsmenn Manchester United sungu þá söngva um Hillsborough-harmleikinn sem kostaði 96 stuðningsmenn Liverpool lífið.

Liverpool vann leikinn 2-0 á Anfield og er í góðri stöðu fyrir síðari leikinn sem fer fram á Old Trafford á fimmtudagskvöldið kemur.

Hegðun stuðningsmanna Manchester United þótti sorgleg og settu söngvarnir ljótan svip á leikinn. Ekkert verður þó gert meira í málinu að hálfu Knattspyrnusambands Evrópu.

Ástæðan fyrir því að Manchester United sleppur með skrekkinn er að dómari leiksins minntist ekki á þetta í umsögn sinni um leikinn. UEFA tekur því enga ástæðu til að taka málið fyrir.

96 stuðningsmenn Liverpool krömdust til bana á Hillsborough-leikvanginum á undanúrslitaleik Liverpool og Nottingham Forrest í apríl 1989. Umræddir stuðningsmenn Liverpool fengu mjög einlita og ósanngjarna umfjöllun í enskum fjölmiðlum eftir slysið þar sem þeim var kennt um hvernig fór.

Annað hefur komið á daginn enda voru það mistök lögreglu sem orsökuðu troðninginn.

Hillsborough, 15, apríl 1989.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×