Fótbolti

Neville bað stuðningsmenn Valencia afsökunar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gary Neville.
Gary Neville. Vísir/Getty
Gary Neville, knattspyrnustjóri spænska liðsins Valencia, sá ástæðu til að biðja stuðningsmenn félagsins afsökunar á frammistöðu liðsins í spænsku deildinni um helgina.

Valencia-liðið tapaði þá 1-0 á móti Levante sem var fyrir leikinn í neðsta sæti deildarinnar. Giuseppe Rossi, fyrrum samherji Gary Neville hjá Manchester United, skoraði sigurmarkið á 64. mínútu leiksins.

Þetta var fjórða tap Valencia í síðustu fimm deildarleikjum og liðið er nú í tólfta sæti, átta stigum frá fallsæti.

„Það er ekki hægt að verja svona frammistöðu," sagði Gary Neville en Valencia hefur aðeins unnið 3 af 15 deildarleikjum síðan að hann tók við í desember.

„Ég tek ábyrgð á þessu og vil biðja stuðningsmenn okkar afsökunar," sagði Gary Neville.

Valencia varð í fjórða sæti í spænsku deildinni í fyrra og hefur aðeins einu sinni endað neðar en fimmta sæti á undanförnum sex tímabilum. Það eru liðin tólf ár síðan að Rafael Benítez gerði liðið að meisturum.

Valencia hefur unnið þrjá leiki undir stjórn Gary Neville en þeir sigurleikir voru á móti Espanyol, Granada og Malaga. Liðið tapaði 3-1 á móti Atlético Madrid um síðustu helgi.

Valencia á eftir erfiða leiki þar á meðal útileiki á móti bæði Barcelona og Real Madrid. Næst á dagskrá er aftur á móti heimaleikur á móti Celta Vigo.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×