Fótbolti

Enrique um Wenger: Aðeins þeir bestu geta verið svona lengi í sama starfi

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Arsene Wenger hefur ekki átt sjö dagana sæla undanfarið.
Arsene Wenger hefur ekki átt sjö dagana sæla undanfarið. vísir/getty
Luis Enrique, þjálfari Spánar- og Evrópumeistara Barcelona, telur að enginn muni þjálfa Katalóníurisann jafn lengi og Arsene Wenger hefur þjálfað Arsenal.

Frakkinn hefur nú verið við störf hjá Lundúnarliðinu í tvo áratugi, en Wenger og Enrique mætast annað kvöld þegar Barcelona og Arsenal eigast við öðru sinni í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Börsungar eru 2-0 yfir eftir fyrri leikinn og ættu að komast tiltölulega auðveldlega áfram. Enrique vann þrennuna á sínu fyrsta tímabili sem þjálfari Barcelona í fyrra og er á góðri leið með að endurtaka afrekið á þessari leiktíð.

Arsene Wenger liggur undir mikilli gagnrýni þessa dagana eftir að vinna aðeins einn af síðustu sjö leikjum liðsins. Arsenal er nánast úr leik í baráttunni um enska meistaratitilinn, í nær ómögulegri stöðu í Meistaradeildinni og úr leik í bikarnum eftir 2-1 tap gegn Watford um helgina.

Þrátt fyrir slakt gengi Arsenal síðustu vikur segir Enrique að Frakinn sé klárlega einn af bestu þjálfurum heims.

„Ég veit ekki hvort nokkur maður hafi þjálfað Barcelona í 20 ár eða hvort það sé hægt í nútímafótbolta,“ sagði Enrique á blaðamannafundi í dag.

„Það er ekki hægt að efast um hversu góður Arsene Wenger er sem knattspyrnustjóri. Aðeins þeir bestu geta haldið sama starfinu svona lengi,“ sagði Luis Enrique.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×