Handbolti

Góð kaup fyrir Hauka að fá pabba... og svo mig

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Petr Baumruk er goðsögn í lifanda lífi hjá Haukum enda skilaði hann mörgum titlum og góðum leikmanni af sér.
Petr Baumruk er goðsögn í lifanda lífi hjá Haukum enda skilaði hann mörgum titlum og góðum leikmanni af sér. vísir/ernir
Haukar tryggðu sér deildarmeistaratitilinn í handbolta karla með sannfærandi sigri, 36-28, á Gróttu á heimavelli í fyrrakvöld. Það er erfitt að neita því að Haukar séu besta lið landsins en Íslandsmeistararnir hafa unnið 20 af 24 leikjum sínum í Olís-deildinni, skorað flest mörk allra liða og fengið á sig fæst.

Hafnfirðingar verða því að teljast ansi líklegir til afreka í úrslitakeppninni sem hefst eftir mánuð.Haukavélin mallaði vel í leiknum gegn Gróttu þar sem margir lögðu hönd á plóg í sóknarleiknum. Alls komust tíu leikmenn Hauka á blað en sjö þeirra skoruðu fjögur mörk eða meira.

Þeirra á meðal var skyttan öfluga Adam Haukur Baumruk en hann gerði fjögur mörk úr sjö skotum og lét auk þess til sín taka í vörninni.

Adam Haukur á flugi gegn Val í undanúrslitum bikarsins.vísir/ernir
Vorum ekki tilbúnir gegn FH

„Það er gott að vera búinn að klára þetta,“ sagði Adam í samtali við Fréttablaðið í gær. Hann var nokkuð ánægður með spilamennsku Hauka í gær og sagði hana mun betri en í jafnteflinu gegn FH í síðustu viku. „Þetta gekk vel miðað við síðasta leikinn gegn FH þar sem við mættum ekki til leiks og vorum ekki tilbúnir.“

Enn er þremur umferðum ólokið í Olís-deildinni og Haukar hafa því svigrúm til að hvíla menn fyrir úrslitakeppnina. Tölvunarfræðineminn Adam segir þó mikilvægt Haukar missi ekki taktinn: „Við fáum smá tíma núna en það þýðir ekki að hætta alveg. Við þurfum að klára þessa þrjá leiki og koma sterkir inn í úrslitakeppnina.“

Adam, sem verður 22 ára síðar í mánuðinum, hefur verið í meistaraflokki í nokkur ár en hann fékk mun stærra hlutverk í Haukaliðinu eftir að Sigurbergur Sveinsson fór til Þýskalands í atvinnumennsku eftir tímabilið 2013-14.

Haukum gekk ekki vel framan af síðasta tímabili en þeir toppuðu á réttum tíma. Og þrátt fyrir að vera ekki með heimavallarrétt í úrslitakeppninni unnu Hafnfirðingar alla sína leiki þar og tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn með stæl.

Patrekur Jóhannesson kvaddi Hauka eftir tímabilið til að einbeita sér að þjálfun austurríska landsliðsins en við starfi hans tók Gunnar Magnússon. Adam segir að það hafi ekki orðið miklar breytingar hjá Haukum við þjálfaraskiptin.

„Ég er eina skyttan þarna og á að skjóta á markið eins og skyttur gera.“vísir/ernir
Fær fullt skotleyfi

„Nei, þetta er mjög svipað. Patti var búinn að leggja góðan grunn og Gunni byggir á þeim honum,“ sagði Adam sem fær fullt skotleyfi hjá Gunnari líkt og hann fékk hjá Patreki.

„Ég er eina skyttan þarna og á að skjóta á markið eins og skyttur gera. Ég fæ traustið hjá Gunnari eins og ég fékk hjá Patta í fyrra. Ef maður fær færi verður maður að skjóta og þjálfarinn skilur það alveg og gefur manni leyfi.“

Haukar tóku þátt í EHF-bikarnum fyrir áramót og spiluðu m.a. tvo leiki við Arnór Atlason og félaga í franska liðinu Saint Raphael. Haukarnir spiluðu mjög vel í fyrri leiknum á Ásvöllum sem tapaðist með einu marki, 28-29. Í seinni leiknum fékk Hafnarfjarðarliðið hins vegar skell og féllu því úr leik.

vísir/vilhelm
Nauðsynlegir Evrópuleikir

Adam segir þessa Evrópuleiki mjög mikilvæga fyrir Haukaliðið. „Það er nauðsynlegt að fá þessa leiki til að sýna okkur og sjá hvernig íslenski handboltinn, og Haukar, standa í samanburði við hin liðin í Evrópu.

„Fyrri leikurinn gegn Saint Raphael var rosalega góður og við spiluðum vel í 60 mínútur. En í útileiknum náðum við ekki að leysa vörnina þeirra og þeir voru bara betri,“ bætti Adam við.

Sigurganga Hauka á þessari öld er ótrúleg en frá árinu 2000 hefur liðið níu sinnum orðið Íslandsmeistari, fimm sinnum bikarmeistari og tíu sinnum deildarmeistari. Þessi mikla sigurganga hófst aldamótaárið 2000 þegar Haukar urðu Íslandsmeistarar eftir sigur á Fram í úrslitaeinvígi. Einn af lykilmönnum Hauka á þeim tíma var Petr Baumruk, faðir Adams, en þeir feðgar hafa hjálpað Haukum að vinna ansi marga titla.

„Það voru góð kaup hjá Þorgeiri Haraldssyni [formaður handknattleiksdeildar Hauka] að fá pabba og svo mig,“ sagði Adam og hló.

Petr kom hingað til lands árið 1990 eftir að hafa notið mikillar velgengni með Dukla Prag í heimalandinu, Tékkóslóvakíu. Petr varð nokkrum sinnum landsmeistari með Dukla Prag og Evrópumeistari meistaraliða 1984. Þá lék hann fjölda landsleikja fyrir Tékkóslóvakíu og spilaði m.a. á tvennum Ólympíuleikum (1988 og 1992).

vísir/valli
Eins og að hafa annan þjálfara

Petr lék með Haukum til ársins 2001 og um áratug seinna tók sonurinn við keflinu. Petr er þó alltaf nálægur en hann starfar í íþróttahúsinu á Ásvöllum og fylgist vel með öllu sem þar fer fram.

„Maður fær aldrei frið heima,“ sagði Adam í léttum dúr, aðspurður hvort pabbinn væri að segja honum til eða skamma hann. „Ef mann vantar ráð getur maður leitað til hans. En hann kann líka að róa sig niður og ef hann sér að ég vil ekki tala um handbolta talar hann ekki um handbolta. Þetta er eins og að hafa annan þjálfara heima.“

Adam segir margt líkt með þeim feðgum á vellinum enda spila þeir sömu stöðu, sem rétthent skytta. „Hann var kannski aðeins grimmari í vörninni. Ég á eftir að vaxa þar,“ sagði Adam. „En helsti munurinn er að hann var meira í gólfskotunum í sókninni en ég meira í uppstökkunum og að skjóta fyrir utan.“

Adam segist ekki hafa fundið fyrir aukinni pressu á sér vegna þess hver faðir hans er. „Auðvitað er einhver pressa á manni en ég hugsa ekki um það. Ég reyni bara að vera ég sjálfur,“ sagði Adam Haukur Baumruk.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×