Körfubolti

Palmer fór á kostum í stórsigri Snæfells

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Haiden Palmer skoraði 38 stig.
Haiden Palmer skoraði 38 stig. vísir/anton brink
Haiden Denise Palmer, leikstjórnandi Snæfells, fór hreinlega á kostum þegar Hólmarar pökkuðu Keflavíkurstúlkum saman í Dominos-deild kvenna í kvöld, 80-59.

Keflavík vann fyrsta leiklutann, 16-14, en Snæfell tók annan leikhluta 25-15 og var yfir í hálfleik, 39-31. Snæfell var svo mun sterkara liðið í seinni hálfleik og vann 21 stigs sigur, 80-59, eftir að vinnai fjórða leikhlutann með tíu stigum.

Palmer lagði grunninn að sigri Snæfells í kvöld en hún skoraði 38 stig, tók 15 fráköst og gaf níu stoðsendingar. Alveg grátlega nálægt þrennu. Palmer hitti úr 17 af 34 skotum sínum í leiknum, þar af 15 af 28 í teignum.

Berglind Gunnarsdóttir bætti við þrettán stigum og Bryndís Guðmundsdóttir var með sex stig og sex fráköst.

Hjá Keflavík var Thelma Dís Ágústsdóttir stigahæst með 21 stig og ellefu fráköst en WNBA-kaninn Monica Wright skoraði aðeins níu stig á 25 mínútum.

Snæfell er eftir leikinn áfram í öðru sæti með 38 stig, tveimur stigum á eftir toppliði Hauka. Keflavík er með 20 stig, tveimur stigum á eftir Grindavík sem tapaði í kvöld en liðin berjast um síðasta lausa sætið í úrslitakeppninni.

Snæfell-Keflavík 80-59 (14-16, 25-15, 19-16, 22-12)

Snæfell: Haiden Denise Palmer 38/15 fráköst/9 stoðsendingar, Berglind Gunnarsdóttir 13/7 fráköst, Hugrún Eva Valdimarsdóttir 8/6 fráköst, Bryndís Guðmundsdóttir 6/6 fráköst, María Björnsdóttir 4/4 fráköst, Rebekka Rán Karlsdóttir 3, Sara Diljá Sigurðardóttir 3, Gunnhildur Gunnarsdóttir 3/5 stolnir, Andrea Björt Ólafsdóttir 2.

Keflavík: Thelma Dís Ágústsdóttir 21/11 fráköst, Sandra Lind Þrastardóttir 10/7 fráköst, Emelía Ósk Gunnarsdóttir 9/5 fráköst, Monica Wright 9/5 fráköst, Marín Laufey Davíðsdóttir 4/8 fráköst, Melissa Zornig 2, Bríet Sif Hinriksdóttir 2, Guðlaug Björt Júlíusdóttir 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×