Körfubolti

Umfjöllun og viðtöl: Grindavík - Valur 58-63 | Valskonur í frábærri stöðu

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Karisma Chapman er að spila vel fyrir Val þessa dagana.
Karisma Chapman er að spila vel fyrir Val þessa dagana. Vísir/Vilhelm
Valskonur gengu langt með að tryggja sér 3. sætið í Dominos-deild kvenna með 63-58 sigri á Grindavík í kvöld en Valur er með fjögurra stiga forskot á Grindavík þegar fjórar umferðir eru eftir.

Grindavík byrjaði leikinn af krafti og leiddi verðskuldað framan af í leiknum. Valsliðið átti í erfiðleikum í sóknarleiknum, voru að tapa of mörgum boltum og þriggja stiga skotin ekki að detta.

Með góðum kafla í þriðja leikhluta náði Valsliðið forskotinu og leiddu þær leikinn allan fjórða leikhluta.

Grindarvíkurliðinu tókst að minnka muninn niður í eitt stig í fjórða leikhluta en lengra komust þær ekki og þurftu að sætta sig við svekkjandi tap.

Fyrir leikin voru aðeins tvö stig sem skyldu liðin að í töflunni. Valskonur sátu í 3. sæti deildarinnar með 20 stig eftir 19 leiki en Grindavík gat jafnað þær að stigum með sigri í kvöld.

Þá gat Grindavík komist upp fyrir Valskonur í töflunni með sigri en Valskonur þurftu á ellefu stiga sigri til þess að komast

Liðin skiptust á körfum fyrstu mínútur leiksins en Grindavíkurliðið náði betri tökum á leiknum eftir því sem leið á leikhlutann.

Áttu þær frábæra rispu þar sem þær breyttu stöðunni úr 4-7 í 17-7 og tóku verðskuldað forskot inn í annan leikhluta 20-15.

Grindavíkurliðið byrjaði annan leikhluta af sama krafti og náði þegar mest var ellefu stiga forskoti en þá virtist Valsvörnin vakna til lífsins. Hófu þær að spila betri vörn og loka á sóknir Grindvíkinga en sóknarleikur lisðins náði aldrei flugi í fyrri hálfleik.

Fór sóknarleikur liðsins að mestu fram í gegnum Karismu Chapman en hún var með 11 af 25 stigum liðsins í fyrri hálfleik.

Gekk liðinu illa að finna opin skotfæri og hitti liðið ekki úr einu þriggja stiga skoti í fyrri hálfleik í sjö tilraunum. Þá tapaði liðið 13 boltum í hálfleiknum á meðan Grindavík tapaði aðeins 5 boltum.

Grindavík leiddi 35-27 í hálfleik og var forystan verðskulduð. Varnarleikur liðsins var til fyrirmyndar en einbeitingarskortur í sóknarleik liðsins hélt Valsliðinu inn í leiknum.

Grindavík virtist ætla að halda forskotinu áfram en vandræði Valsliðsins fyrir utan þriggja stiga línunna héldu áfram framan af í leikhlutanum. Var liðið búið að klúðra tíu tilraunum í röð þegar liðið fór skyndilega að hitta.

Þrír þristar í röð hjá Valsliðinu þýddu að þær náðu skyndilega sex stiga forskoti fyrir lokaleikhlutann 53-47 og virtist öll stemmingin vera hjá gestunum, bæði í vörn og sókn.

Í fjórða leikhluta hélt Valsliðið forskotinu allt til loka en Grindvíkingum tókst að minnka muninn niður í eitt stig þegar tvær mínútur voru til leiksloka.

Þá setti Valsliðið aftur í gír en þriggja stiga karfa Bergþóru Holton Tómasdóttir gekk langt með að klára leikinn þegar mínúta var eftir.

Grindavík náði ekki af stilla upp í almennilegar lokasóknir og þurftu leikmenn liðsins því að sætta sig við svekkjandi tap eftir að hafa leitt lengst af fyrstu þrjá leikhluta leiksins.

Karisma Chapman átti sannkallaðan stórleik í liði Vals með 27 stig og 13 fráköst en í liði Grindavíkur var Sigrún Sjöfn Ámundadóttir með tvöfalda tvennu, 13 stig og 12 fráköst.

Hallveig: Vorum ömurlegar í vörn í fyrsta leikhluta„Þetta var gríðarlega mikilvægt og ótrúlega sæt tilfinning eftir þessa hræðilegu byrjun. Við sýndum flottan karakter með því að vinna þetta upp og taka sigurinn,“ sagði Hallveig Jónsdóttir, leikmaður Vals, sátt að leikslokum.

„Ég get eigilega ekki svarað því hvað fór úrskeiðis í byrjun. Þetta var alveg hreint út sagt hræðilegt. Við gátum ekkert í sókn og vorum ömurlegar í vörn. Það vantaði alla grimmd í liðið og við vorum einfaldlega bara hræddar.“

Valsliðið hélt Grindvíkingum í 15, 12 og svo loks ellefu stigum í síðustu þremur leikhlutunum en varnarleikurinn skóp sigurinn í kvöld.

„Það var það sem gerði útslagið í dag. Við tókum leikhlé snemma og töluðum um að þetta væri hreint út sagt ömurlegt og að við þyrftum að rífa okkur í gang sem við og gerðum og breyttum þessum leik.“

Eftir erfiðleika framan af við þriggja stiga línuna hittu Valskonur út hverju skotinu á fætur öðrum undir lok þriðja leikhluta.

„Þetta er allt í hausnum hjá manni. Maður þarf að halda áfram og hugsa að næsta skot detti ofaní. Maður gleymir þessu og heldur áfram með leikinn.“

Hallveig hrósaði baráttuanda liðsins.

„Það er það helsta sem við tökum úr þessum leik fyrir næstu leiki. Við ætlum að reyna að vinna út og við getum byggt á þessu að hafa unnið þótt að við höfum ekkert spilað neitt frábærlega.“

Sigrún Sjöfn: Förum allar út í okkar eigin horn„Það var súr stemming. Við vorum flottar í fyrri hálfleik en í seinni hálfleik vorum við bara allar í sitt hvoru horninu,“ sagði Sigrún Sjöfn Ámundardóttir, leikmaður Grindavíkur, svekkt aðspurð hvernig stemmingin hefði verið inn í klefanum eftir tapið.

„Við vorum að reyna of mikið að gera eitthvað upp á eigin spýtur og við fórum að tapa boltanum trekk í trekk. Það gengur ekki í mikilvægum leik eins og þessum.“

Sigrún var ósátt með sveiflukenndan sóknarleik liðsins í dag.

„Varnarleikurinn var ágætur, við fáum 63 stig á okkur sem er í lagi en við hættum algjörlega að spila sem lið og vorum allar í okkar eigin horni,“ sagði Sigrún og bætti við:

„Við skiptum um vörn og fengum fjóra þrista á okkur á skömmum kafla undir lok þriðja leikhluta og þá missum við bara dampinn. Þá fórum við í einhverja fýlu, ég skil ekki hvað við vorum að gera.“

Sigrún var ósátt með dómgæsluna í kvöld en sagði þó að hún hefði ekki hallað á annað hvort liðið.

„Það var lítið dæmt í kvöld og það voru fleiri ósáttir en ég. Maður vill auðvitað fá meira þegar maður sækir á körfuna en þeir stóðu sig ágætlega. Við létum dómgæsluna kannski fara of mikið í taugarnar á okkur í kvöld.“

Grindavíkurkonur náðu að minnka forskotið niður í eitt stig í fjórða leikhluta en lengra komust þær ekki.

„Við vorum að tapa boltanum á mikilvægum stundum. Það var eins og hann væri heitur eða sleipur. Við vorum að kasta honum allt of oft frá okkur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×