Innlent

Er þetta hinn sögufrægi smiðjusteinn Skallagríms?

Kristján Már Unnarsson skrifar
Smiðjusteinn Skallagríms Kveldúlfssonar, landnámsmanns Borgarfjarðar, gæti verið fundinn. Raunar er fullyrt að þessi sögufrægi steinn hafi aldrei týnst, það hafi alltað verið vitað um hann á sveitabæ einum á Mýrum. 

Nokkrir merkustu sögustaðir Egils sögu Skallagrímssonar eru í Borgarnesi og nágrenni, einn þeirra er bærinn Rauðanes.

„Skalla-Grímur var járnsmiður mikill og hafði rauðablástur mikinn á vetrinn; hann lét gera smiðju með sjónum mjög langt út frá Borg, þar sem heitir Raufarnes,“ segir í Egilssögu en bærinn heitir nú Rauðanes.

Egilssaga greinir jafnframt frá því að Skallagrímur hafi haft mikið fyrir því að finna góðan smiðjustein því grjót á svæðinu hafi hentað illa. Steininn hafi hann fundið í sjó við Miðfjarðareyjar, kafað eftir honum og róið með hann til lands. 

„Liggur sá steinn þar enn og mikið sindur hjá, og sér það á steininum, að hann er barður ofan og það er brimsorfið grjót og ekki því grjóti líkt öðru, er þar er, og munu nú ekki meira hefja fjórir menn,“ segir í Egilssögu. 

Þegar þau Kjartan Ragnarsson og Sigríður Margrét Guðmundsdóttir voru að koma Landnámssetri Íslands á fót í Borgarnesi fyrir liðlega áratug vissu menn ekki betur en að smiðjusteinn Skallagríms væri týndur. 

„Það er árið 2004 sennilega sem við erum að tala við þau hérna í Rauðanesi,“ segir Kjartan og kveðst hafa sagt við Rósu í Rauðanesi að það væri leiðinlegt að steinninn skyldi hafa týnst. Hún hafi þá svarað: 

„Hann týnst? Steinninn er hérna niðrí fjöru! Við höfum alltaf vitað hvar þessi steinn er! Komdu! Ég skal sýna þér hann!“ 

Kjartan skoðaði steininn og segir að útlit hans og stærð komi heim og saman við lýsinguna í Egilssögu. Úr varð að þau í Rauðanesi sóttu steininn á traktor og komu honum fyrir á aðgengilegri stað. 

Kjartan Ragnarsson, forstöðumaður Landnámsseturs Íslands í Borgarnesi, við vörðu sem búið er hlaða við bæinn Rauðanes til minja um smiðju Skallagríms.Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.
„Rauðnesingar eru alveg sannfærðir um að þetta sé steinninn. Þetta er skemmtileg spekulasjon og þetta passar við lýsinguna í Egilssögu. Þarna er þessi ágæti steinn,“ segir Kjartan. 

Fjallað er um Skallagrím og Egilssögu í þættinum Landnemarnir á Stöð 2 í kvöld, mánudagskvöld, klukkan 20.15.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×