Sport

Sharapova: Ég axla fulla ábyrgð

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Sharapova á fundinum í kvöld.
Sharapova á fundinum í kvöld. vísir/getty
Sá fáheyrði atburður gerðist í kvöld að íþróttamaður axlaði ábyrgð eftir að hafa fallið á lyfjaprófi.

Tenniskonan Maria Sharapova hélt blaðamannafund í kvöld þar sem hún staðfesti að hún hefði fallið á lyfjaprófi á opna ástralska mótinu í janúar.

Efnið meldonium fannst í Sharapovu en hún hefur notað það í tíu ár af heilsufarsástæðum. Það virðist þó hafa farið fram hjá henni að efnið var sett á bannlista um áramótin.

Sjá einnig: Sharapova féll á lyfjaprófi

„Ég féll á lyfjaprófi og axla fulla ábyrgð á því,“ sagði Sharapova á blaðamannafundi sínum í kvöld.

„Síðustu tíu ár hef ég fengið lyfið mildronate frá fjölskyldulækninum. Er mér var tilkynnt að ég hefði fallið á lyfjaprófi þá komst ég að því að þetta lyf er einnig kallað meldonium. Ég vissi það ekki.“

Sharapova er ein stærsta íþróttastjarna heims og hefur verið ein af tekjuhæstu kveníþróttamönnunum eftir að hún vann Wimbledon-mótið aðeins 17 ára gömul.

„Það er mikilvægt að allir skilji að þetta lyf hefur ekki verið á bannlista og ég hef verið að taka það löglega. Ég vissi ekki af því að það hefði verið sett á bannlista. Ég fékk tölvupóst um breytingar í lyfjalögunum þann 22. desember en ég opnaði ekki hlekkinn sem fylgdi. Það voru stór mistök hjá mér. Ég hef brugðist aðdáendum mínum og íþróttinni sem ég elska svo mikið.

„Ég veit að mörg ykkar héldu að ég væri að tilkynna að ég væri hætt en það myndi ég aldrei gera í miðbæ Los Angeles á hóteli með svona ljótu teppi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×