Sport

Fiðlusnillingur fær bætur frá alþjóða skíðasambandinu

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Mae hress og kát í Sotsjí.
Mae hress og kát í Sotsjí. vísir/getty
Vanessa Mae var sökuð um að hafa svindlað sér á Ólympíuleikana en hafði betur í baráttu við alþjóða skíðasambandið.

Það vakti mikla athygli er fiðlusnillingurinn Vanessa Mae tryggði sér sæti á Vetrarólympíuleikunum í Sotsjí árið 2014. Hún gerði ekki merkilega hluti í Sotsjí. Tók þátt í risasvigi og var langsíðust.

Þó svo Mae sé breskur ríkisborgari þá nýtti hún sér ættartengsl til þess að keppa fyrir hönd Tælands. Hún er heimsþekktur fiðlusnillingur og klárlega betri með fiðluna en á skíðunum.

Hún tryggði sér þátttökuréttinn á ÓL með því að taka þátt á FIS-mótum í Slóveníu sem voru skipulögð með afar litlum fyrirvara.

Eftir leikana ásakaði skíðasambandið hana um að hafa svindlað sér til Sotsjí og setti hana í fjögurra ára bann. Það sætti Mae sig ekki við og kærði þann úrskurð til íþróttadómstólsins í Sviss.

Þar hafði hún fullnaðarsigur. Banninu hefur verið hnekkt og hún fær bætur sem hún ætlar að láta renna til góðgerðarsamtaka.

Dómstóllinn setti aftur á móti út á mótin sem komu henni til Sotsjí. Sagði margt furðulegt vera í gangi þar sem þyrfti að breyta en það hefði ekkert með Mae og hennar aðstoðarfólk að gera.

Mae stefnir á að komast inn á leikana árið 2018.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×