Enski boltinn

Pochettino: Getum barist á báðum vígstöðvum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Pochettino heilsar Paulo Sousa, stjóra Fiorentina, fyrir leikinn í gær.
Pochettino heilsar Paulo Sousa, stjóra Fiorentina, fyrir leikinn í gær. vísir/getty
Tottenham komst í gær áfram í 16-liða úrslit Evrópudeildarinnar eftir 3-0 sigur á Fiorentina á White Hart Lane. Fyrri leik liðanna lyktaði með 1-1 jafntefli og Spurs vann því einvígið 4-1 samanlagt.

Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri Tottenham, var að vonum sáttur með sína drengi og segir að Spurs geti barist um að vinna bæði ensku úrvalsdeildina og Evrópudeildina.

„Í augum stuðningsmannanna er úrvalsdeildin kannski mikilvægari en við verðum að virða báðar keppnirnar,“ sagði Pochettino eftir leikinn í gær.

„Við erum með nógu mikil gæði og nógu stóran hóp til að berjast á báðum vígstöðvum,“ bætti Argentínumaðurinn við.

Dagskráin hjá Tottenham er þétt næstu daga en liðið á fyrir höndum þrjá leiki í úrvalsdeildinni á aðeins viku. Þrátt fyrir þetta segir Pochettino að Spurs geti barist um báða titlana sem enn eru í boði.

„Af hverju að leggja meiri áherslu á aðra keppnina? Okkar bíða þrír mikilvægir leikir í úrvalsdeildinni og svo förum við að hugsa um næstu umferð í Evrópudeildinni,“ sagði Pochettino en dregið verður í 16-liða úrslit keppninnar í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×