Enski boltinn

Rashford bætti 51 árs gamalt met George Best í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marcus Rashford og George Best.
Marcus Rashford og George Best. Vísir/Getty
Marcus Rashford sló óvænt í gegn í gær þegar hann skoraði tvö mörk í sínum fyrsta leik með aðalliði Manchester United.

Marcus Rashford kom United í 3-1 með tveimur mörkum á tólf mínútna kafla í seinni hálfleik í 5-1 sigri enska liðsins á dönsku meisturunum í Midtjylland.

Midtjylland vann fyrri leikinn 2-1 og var því í fínum málum þegar Marcus Rashford tók til sinna ráða á Old Trafford í gær.

Marcus Rashford bætti með þessu 51 árs gamalt met United-goðsagnarinnar George Best sem hafði staðið frá því í október 1964.

Rashford var 18 ára og 117 daga í gær og bætti hann met Best um 41 dag.

George Best var "aðeins" 18 ára og 158 daga þegar hann skoraði fyrir Manchester United á móti sænska liðinu Djurgarden í gamla borgarbikar UEFA 27. október 1964.

Best skoraði markið sitt á 86. mínútu og kom þá United-liðinu í 6-0 en áður höfðu þeir Denis Law (3 mörk) og Bobby Charlton (2 mörk) skorað fimm mörk saman.

Marcus Rashford er ekki sá fyrsti sem skorar meira en eitt mark í fyrsta leik sínum með aðalliði Manchester United. Tvö nýleg dæmi eru mönnum eflaust í fersku minni.

Wayne Rooney skoraði þrennu í sínum fyrsta leik sem var á móti Fenerbahce í Meistaradeildinni í september 2004 og James Wilson skoraði tvö mörk í sínum fyrsta leik 6. maí 2014 sem var á móti Hull í ensku úrvalsdeildinni.

Annað dæmi er Paul Scholes sem skoraði tvö mörk í sínum fyrsta leik sem var á móti Port Vale í deildarbikarnum í september 1994. Bobby Charlton skoraði líka tvö mörk í sínum fyrsta leik með United en hann er markahæsti leikmaður Manchester United frá upphafi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×