Enski boltinn

Gylfa finnst þessi bók góð og þessi bikar ljótur | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. Vísir/Getty
Íslenski landsliðsmaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson hefur byrjað árið vel með Swansea City í ensku úrvalsdeildinni og góð frammistaða kallar á meiri umfjöllun og meiri áhuga á okkar manni.

Sjónvarpsþátturinn Soccer AM á Sky Sports stöðinni ákvað að fá Gylfa til að fara yfir færslur, myndir og myndbönd sem hann hefur sett inn á Instagram-reikninginn sinn að undanförnu.

Íslandstengingin er að sjálfsögðu mjög sterk á Instagram-reikningi Gylfa og þar má sjá meðal annars bókina sem hann gaf út fyrir jólin, fögnuðinn á Ingólfstorgi eftir að íslenska landsliðið tryggði sér sæti í úrslitakeppni EM á fyrsta sinn og þá fær kærasta Gylfa mikið hrós frá þáttarstjórnandanum.

Gylfi er ánægður með bókina sína og segir frá því hvað þetta kvöld í september skipti miklu máli fyrir landsliðsmennina og íslensku þjóðina. Þar kemur einnig fram að Gylfi hafði sloppið við að efna loforðið um að brjóta áfengisbindindi sitt og fá sér eitt vínglas ef Ísland kæmist á EM. Landliðsfélagarnir drukku víst svo mikið að þeir tóku ekki eftir því að Gylfi fékk sér ekki neitt.

Innslagið endar á mynd af Gylfa þegar hann var kosinn Íþróttamaður ársins 2013. Umræðan snýst um bikarinn sjálfan sem þeim báðum finnst vera ljótur.

Það er hægt að sjá þetta fróðlega innslag í myndbandinu hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×