Lífið

Að drekka flókna kokteila í úthverfi

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Helgin

Í kvöld er ég að fara í kokteila- og pítsuboð í úthverfi með vínkonum mínum.

Ein af uppáhaldskonunum í lífi mínu er nefnilega á landinu í stuttri vinnuferð frá meginlandinu þar sem hún er búsett ásamt eiginmanni sínum. Mjög fullorðins allt saman.

Til að vega upp á móti því hvað allir eru orðnir fullorðnir og ráðsettir ætlum við að gista á æskuheimili hennar, baka pítsu, fara í pottinn, drekka kokteila og gista saman.

Að vera í úthverfinu er strategísk ákvörðun af hálfu vínkonunnar. Sökum búsetu hennar hittumst við sjaldnar en ef hún væri búsett hér og því vill hún hámarka þann tíma sem við eigum saman á meðan á dvöl hennar stendur.

Nú búum við flestar niðri í bæ og hefði verið rakið að setja upp bækistöðvar í 101 en það vill nú oft verða að þegar maður hittist í nálægum radíus við skemmtistað og hefur sporðrennt nokkrum kokteilum að hugurinn leitar niður í bæ.

Ein þarf að hitta einhvern æðislegan gaur sem hún matsaði við á Tinder, önnur æskuvinkonu sem hún hefur ekki hitt í mörg ár og sú þriðja ætlar aðeins að kíkja á kærastann sem situr á einhverjum stað með einhverjum vinum.

Hópurinn tvístrast og við sjáumst ekki meira það kvöldið. Eða þannig endar þetta oft og því best að einangra hópinn í úthverfi þar sem er ekki hægt að fara neitt eða gera neitt. Ég er í það minnsta þrælspennt og ætla að taka með mér svefnpoka, ullarpeysu, hlýja sokka, vasaljós og allt sem þarf til að blanda Aperol Spritz.





Hárkúr

Eftir stóra brunamálið hef ég tekið heilsuna föstum tökum. Ég er til dæmis byrjuð að taka vítamín af fullum krafti, borða hollt og svo má ekki gleyma andlegu hliðinni. Þetta spilar allt saman, sjáið þið til.

Núna er ég alveg svoleiðis á rúllandi róli að skella í mig D-vítamíni, lýsi og einhverju sem kallast hárkúr. Hárkúrnum er ég að sporðrenna þar sem þar eiga víst að leynast ýmiss konar bætiefni fyrir húðina ekki síður en hárið og var því mælt með því vegna stóra brunablöðrumálsins sem hertekið hefur líf mitt síðastliðna mánuði.

Gott og blessað allt saman en ég er samt örlítið stressuð yfir þessum hárkúr. Ég er nefnilega með alveg nóg af hári. Sérstaklega á höfðinu og á augabrúnunum. Þær mega eiginlega ekki við því að stækka neitt mikið meira en ég átti í talsverðri baráttu við þær á unglingsárunum þegar örmjóar augabrúnir voru í tísku. Það var ekki alveg mitt tímabil þó ég hafi reynt að fylgja því eftir af öllum mínum lífs- og sálarkröftum líkt og fermingarmyndirnar mínar bera augljóst vitni um.

Ég var því alsæl þegar stórar augabrúnir urðu aðalmálið. Mínar eru sko þannig að ef ég sinni þeim ekki reglulega þá verð ég bara eins og pabbinn í American Pie. Myndarmaður og allt það en það er bara ekki lúkk sem ég vil channela.





Diskar

Sko, nú hef ég mjög gaman af því að fara út að borða og geri talsvert af því en það sagði mér einhvern tímann einhver að það væri nauðsynlegt að borða til þess að halda lífi og ég hef dáldið reynt að lifa eftir því.

Þegar það gefst ekki tími til að elda mat heima sökum (mis)áríðandi anna er auðvitað æðislegt að fara á veitingastað og láta fagaðila, eða framhaldsskólanema í kvöldvinnu, sjá um að kokka ofan í sig og þurfa ekki einu sinni að huga að uppvaskinu.

Það er samt eitt í þessu öllu saman. Eins gaman og mér finnst að borða úti þá finnst mér næstum því jafn leiðinlegt að borða matinn minn úr krukku, af tréplatta, hraunplatta eða einhverju öðru álíka frumlegu.

Kallið mig bara forherta og gamaldags en ég sé bara ekkert að því að borða matinn minn af disk. Mér finnst það meira að segja bara alveg stórgott og er nokkuð viss um að það sé góð og gild ástæða fyrir því að flestir nota fyrrnefndan borðbúnað til neyslu á ýmiss konar matvælum.





Mánudagsmúsin

Á mánudögum er maður oft algjör mánudagsmús enda geta mánudagar oft verið erfiðustu dagar vikunnar af ýmsum og alls konar ástæðum. Það sem hefur gefist mér einna best í baráttunni við mánudagsbugunina er að skoða myndir af barnungum dýrum.

Þá skelli ég einfaldlega bara baby fyrir framan eitthvert dýraheiti í leitarvélina Google og skoða svo myndir þar til mesta bugunin er liðin úr mér og ég tek að kætast. Virkar alltaf á mig og ég hvet sem flesta til að prófa.

Leitarorð sem ég mæli með í þessu samhengi eru: Baby piglet, baby sloth, baby goat og í persónulegu uppáhaldi er baby tapir.






Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.