Handbolti

Er Afturelding búin að finna annan Gintaras?

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Pinnonen skoraði níu mörk í góðum sigri Aftureldingar á Fram í gær.
Pinnonen skoraði níu mörk í góðum sigri Aftureldingar á Fram í gær. vísir/stefán
Eistneski leikstjórnandinn Mikk Pinnonen átti stórleik þegar Afturelding vann fimm marka sigur, 29-24, á Fram í N1-höllinni í Mosfellsbæ í gær.

Pinnonen, sem er 25 ára, skoraði níu mörk, úr aðeins 12 skotum, og átti auk þess fjölda stoðsendinga á félaga sína í sínum þriðja leik fyrir Aftureldingu en hann kom til liðsins í janúar.

„Hann er gífurlega snöggur á fótunum og frábært að hafa hann í svona leik, hann hjálpar svo mikið til. Hann er frábær viðbót við hópinn okkar,“ sagði Davíð Svansson, markvörður Aftureldingar, aðspurður um Pinnonen eftir leikinn í gær.

Afturelding hefur verið í vandræðum með leikstjórnandastöðuna í vetur. Örn Ingi Bjarkason, sem var einn besti leikmaður Mosfellinga í fyrra, fór til Hammarby í Svíþjóð í sumar og þá sleit Elvar Ásgeirsson krossband í hné sem heldur honum frá keppni þetta tímabilið.

Guðni Már Kristinsson var fenginn til að fylla þeirra skarð en hann hefur sjálfur átt við meiðsli að stríða.

Sjá einnig: Eistlendingur með íslenska tengingu í Mosfellsbæinn

En nú virðist Afturelding hins vegar hafa fundið leikstjórnandann sem liðið vantaði. Pinnonen, sem var síðast á mála hjá Dormagen í Þýskalandi, var upp og ofan í fyrstu tveimur leikjum sínum með Aftureldingu, sem voru báðir gegn Haukum, en hann sýndi sparihliðarnar gegn Fram í gær.

Varnarmenn Fram áttu í mestu vandræðum með Pinnonen í leiknum í gær.vísir/stefán
Þetta er raunar ekki í fyrsta skipti sem Afturelding fær leikstjórnanda frá Eystrasaltsríkjunum sem reynist liðinu vel.

Í kringum aldamótin komu tveir litháískir landsliðsmenn í Mosfellsbæinn; Gintas Galkauskas og Gintaras Savukynas. Sá síðarnefndi var leikstjórnandi og var lykilmaður á gullaldartímabili í sögu Aftureldingar.

Gintaras lék þrjú tímabil með Aftureldingu, frá 1998 til 2001. Fyrsta tímabilið varð liðið þrefaldur meistari; deildar-, bikar- og Íslandsmeistari og átti Litháinn stóran þátt í þeim frábæra árangri sem liðið náði.

Afturelding varð aftur deildarmeistari árið á eftir en féll úr leik fyrir Haukum í undanúrslitum úrslitakeppninnar og tókst ekki að verja bikarmeistaratitilinn.

Síðasta tímabil Gintaras á Íslandi endaði Afturelding í 4. sæti í deildinni og féll aftur úr leik í undanúrslitum úrslitakeppninnar. Gintaras yfirgaf Aftureldingu eftir tímabilið 2000-01 en hann átti síðar eftir að þjálfa lið ÍBV hér á landi, á árunum 2005-07.

Pinnonen er auðvitað langt frá því að vera kominn á sama stall og Gintaras er á Mosfellsbænum en það verður spennandi að sjá hvað hann gerir með liði Aftureldingar á næstu mánuðum. Byrjunin lofar allavega góðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×