Fótbolti

Lahm: Neuer er besti markvörður í heimi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lahm hefur mikið álit á Neuer.
Lahm hefur mikið álit á Neuer. vísir/getty
Philipp Lahm, fyrirliði Bayern München, segir að samherji sinn, Manuel Neuer, sé besti markvörður í heimi.

Neuer hefur verið afar sigursæll síðan hann gekk í raðir Bayern frá Schalke 04 sumarið 2011. Markvörðurinn hefur þrívegis orðið þýskur meistari, tvisvar sinnum bikarmeistari auk þess að vinna Meistaradeild Evrópu 2013. Þá varð Neuer heimsmeistari með þýska landsliðinu 2014.

Lahm segir að Neuer hafi allt sem prýða þurfi góðan markvörð.

„Til að ná langt þarftu hæfileika, tækni- og líkamlega getu og skilning á leiknum. Stærðin skiptir ekki miklu máli,“ sagði Lahm um markvörðinn sinn.

„Ef þú ætlar að vera í hópi þeirra bestu þurfa þrjú fyrstnefndu atriðin að vera í lagi og allir frábærir leikmenn eru með mjög góðan leikskilning.

„Að mínu mati er hann án nokkurs vafa besti markvörður í heimi og ég myndi ekki skipta á honum og neinum öðrum,“ bætti Lahm við.

Lahm, Neuer og félagar þeirra hjá Bayern eru með átta stiga forskot á Borussia Dortmund á toppi þýsku 1. deildarinnar og stefna hraðbyri í átt að fjórða meistaratitlinum í röð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×