Handbolti

Umfjöllun og viðtöl: Afturelding - Grótta 24-24 | Sanngjörn niðurstaða í Mosfellsbænum

Ingvi Þór Sæmundsson í N1-höllinni skrifar
Mikk Pinnonen skoraði sex mörk í kvöld.
Mikk Pinnonen skoraði sex mörk í kvöld. vísir/stefán
Afturelding og Grótta skildu jöfn, 24-24, í 21. umferð Olís-deildar karla í kvöld.

Stigið skilar Aftureldingu upp fyrir Fram í 3. sæti deildarinnar en Grótta er í því sjötta. Það munar þó aðeins einu stigi á liðunum.

Fyrri hálfleikur var gríðarlega jafn en aldrei munaði meira en tveimur mörkum á liðunum.

Bæði lið spiluðu sterka vörn og markverðirnir voru vel með á nótunum, og þá sérstaklega Lárus Helgi Ólafsson í marki Gróttu en hann varði 10 skot í fyrri hálfleik (48%).

Sóknarleikur beggja liða var mjög slakur framan af fyrri hálfleik. Vörn Aftureldingar var öflug en Mosfellingar voru oft á tíðum klaufar þegar þeir köstuðu boltanum strax frá sér eftir að hafa staðið góða vörn.

Gróttuvörnin var sömuleiðis sterk enda skoraði Afturelding aðeins þrjú mörk á fyrstu 16 mínútum leiksins. Mikk Pinnonen átti ekki jafn góðan leik og gegn Fram í síðustu umferð en var samt duglegur að spila samherja sína í góð færi sem þeir nýttu ekki. Lárus var mjög góður í markinu og tók nokkur dauðafæri.

Eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn fóru svo að opnast fleiri göt í vörnum liðanna.

Afturelding breytti stöðunni úr 3-5 í 9-7 en sóknarleikur Mosfellinga batnaði mikið við innkomu Jóhanns Gunnars Einarssonar.

Grótta gat hins vegar þakkað Finni Inga Stefánssyni fyrir að staðan var jöfn í hálfleik, 11-11, en hann skoraði þrjú af síðustu fjórum mörkum gestanna í fyrri hálfleik og lagði hitt upp.

Seinni hálfleikurinn var mun sveiflukenndari en sá fyrri. Gróttumenn byrjuðu hann mun betur og skoruðu fyrstu þrjú mörkin. Mosfellingar voru lengi í gang í sókninni og líkt og í fyrri hálfleik tapaði liðið boltanum alltof oft.

Afturelding jafnaði metin í 16-16 en þá kom frábær 4-0 kafli hjá Gróttu. Þrjú þessara marka komu eftir hraðaupphlaup en heimamenn voru sem fyrr full duglegir að deila boltanum með gestunum.

Í stöðunni 16-20, þegar stundarfjórðungur var til leiksloka, fékk Þráinn Orri Jónsson, varnarjaxl Gróttu, tveggja mínútna brottvísun. Það kom Mosfellingum á bragðið en þeir skoruðu sjö mörk gegn einu og náðu tveggja marka forystu, 23-21, þegar Pinnonen skoraði sitt fimmta mark í leiknum.

Grótta var í tómu basli í sókninni á þessum kafla og skoraði ekki mark í um níu mínútur. Viggó Kristjánsson hjó loks á hnútinn þegar hann minnkaði muninn í 23-22 og í kjölfarið fengu heimamenn tveggja mínútna brottvísun fyrir vitlausa innáskiptingu.

Guðni Ingvarsson jafnaði metin í 23-23 en Pinnonen kom Aftureldingu yfir á ný með frábæru skoti. Seltirningar voru þó fljótir að svara þegar Árni Benedikt Árnason jafnaði metin í 24-24 með sínu fyrsta og eina marki í leiknum.

Bæði lið fengu tækifæri til að tryggja sér sigurinn en varð ekki ágengt. Lokatölur því 24-24 í hörkuleik.

Árni Bragi Eyjólfsson fylgdi eftir frábærum leik gegn Fram í síðustu umferð og var markahæstur í liði Aftureldingar með sjö mörk. Pinnonen kom næstur með sex mörk en hann átti auk þess slatta af stoðsendingum.

Hinum megin voru Guðni og Viggó markahæstir með fimm mörk hvor. Finnur Ingi og Aron Dagur Pálsson skoruðu báðir fjögur mörk í fyrri hálfleik en létu minna fyrir sér fara í þeim seinni.

Jóhann Gunnar: Hver tapaður bolti er dýr

Jóhann Gunnar Einarsson, leikmaður Aftureldingar, var á báðum áttum hvort hann ætti að vera sáttur eða ósáttur með stigið sem Mosfellingar fengu gegn Gróttu í kvöld.

"Ég er drullufúll en þeir áttu síðasta skotið þannig að verður maður ekki að taka þessu," sagði Jóhann Gunnar en Mosfellingar leiddu með tveimur mörkum, 23-21, þegar fimm mínútur voru eftir.

"Það var klaufaskapur hjá okkur þegar við gerðum vitlausa skiptingu, þótt það hafi kannski ekki gert útslagið.

"Þetta var sveiflukenndur leikur. Þeir skoruðu mikið úr hraðaupphlaupum eftir að við köstuðum boltanum frá okkur. En svo tókum við leikhlé, róuðum okkur og lögðum áherslu á að enda sóknirnar með skoti. Það er svo mikilvægt.

"Þessi deild snýst dálítið um það að tapa boltanum ekki. Þú mátt ekkert við því, það er ekki það mikið skorað. Hver tapaður bolti er dýr."

Jóhann Gunnar segist allur vera að koma til eftir meiðsli þótt það vanti enn talsvert upp á leikformið.

"Líkamlega er ég að komast í gott stand en leikformið vantar. Birkir (Benediktsson) er búinn að spila þvílíkt vel og nú er ég bara í því hlutverki að hvíla hann, koma inn á og hjálpa til. Svo sjáum við hvernig þetta verður," sagði Jóhann Gunnar að lokum.

Gunnar: Finnst hann alltaf vera á fjórða, fimmta skrefinu

Gunnar Andrésson, þjálfari Gróttu, var bærilega sáttur með eitt stig úr leiknum gegn Aftureldingu í kvöld.

"Jájá, mér finnst við samt vera með ansi góð spil á hendi þegar 12-13 mínútur voru eftir, fjórum mörkum yfir og vorum einhvern veginn með þá," sagði Gunnar eftir leik.

"En við áttum í erfiðleikum á kafla í sókninni undir lokin og það vantaði kannski aðeins meira framlag frá 1-2 leikmönnum hjá mér í dag svo við gætum klárað leikinn.

"Sóknin var ekkert sérstök en vörnin var góð og Lárus (Helgi Ólafsson) mjög góður í markinu. Af þessum 11 mörkum sem þeir skoruðu í fyrri hálfleik komu 10 af línu eða úr horni þannig að við fengum ekki á okkur mörk utan af velli."

Mikk Pinnonen, eistneski leikstjórnandinn í liði Aftureldingar, átti fínan leik í kvöld og skoraði sex mörk. Gróttumenn kvörtuðu þó mikið yfir því að hann tæki of mörg skref þegar hann færi í árásir á vörnina. Frammarar kvörtuðu einnig yfir því sama í leiknum gegn Aftureldingu fyrir viku.

"Mér finnst þetta á mjög gráu svæði. Þetta er eitthvað nýtt fyrir dómarana og ég held að menn þurfi aðeins að skoða þetta. Mér finnst hann alltaf vera í fjórða, fimmta skrefinu. En það réði ekki úrslitum," sagði Gunnar sem fer nú að undirbúa sína menn undir leikinn gegn Stjörnunni í undanúrslitum bikarkeppninnar á föstudaginn eftir viku.

"Við höfum lítið verið að spá og spekúlera varðandi bikarinn. Nú fer sú vinna bara á fullt í kvöld og á morgun og það er rosalega skemmtileg vika framundan sem við ætlum að búa okkur vel undir," sagði Gunnar að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×