Innlent

Hótel­stjórinn á Fróni: „Ég hélt að þetta væri eitt­hvað grín“

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Gísli Úlfarsson hótelstjóri segist ekki hafa trúað því að ferðamaðurinn væri kominn á Siglufjörð.
Gísli Úlfarsson hótelstjóri segist ekki hafa trúað því að ferðamaðurinn væri kominn á Siglufjörð. Vísir/Stefán

„Ég er búinn að vera í þessu í átján ár og þetta hefur aldrei skeð nokkurn tímann,“ segir hótelstjórinn á Fróni, Gísli Úlfarsson, um ferðamanninn sem villtist alla leið á Siglufjörð í gær í leit að hótelinu. Hótel Frón stendur við Laugaveg í Reykjavík en ferðamaðurinn fór á Laugarveg á Siglufirði.

Hótelið er skráð á Laugarvegi, með r-i, á einni stærstu hótelbókunarsíðu heims.

Ferðamaðurinn fylgdi leiðbeiningum á GPS-tækinu sem hann var með og sló hann inn heimilisfangi hótelsins minnst þrisvar, en alltaf var honum vísað á Laugarveg á Siglufirði. Óljóst er hvort misskilningurinn felist í því að á allnokkrum bókunarsíðum er hótelið skráð á Laugarvegi, með r-i.

Gísli segir að eftir að bent hafi verði á þessa stafsetningarvillu á bókunarsíðum í gærkvöldi hafi þau á hótelinu strax hafist handa við að leiðrétta skráninguna. Þrátt fyrir villuna hefur þetta aldrei komið fyrir áður, að sögn hótelstjórans.

„Nei aldrei nokkurn tímann. Þetta er mjög sérstakt, að tékka ekki á því í hvaða borg hann er að fara,“ segir Gísli. „Hann hringdi í okkur í gærkvöldi og ég hélt að þetta væri eitthvað grín. Ég ætlaði ekki að trúa því að hann væri kominn á Siglufjörð.“

Ferðamaðurinn bað um að fá að færa gistinguna þegar hann var kominn alla leið á Siglufjörð en eins og Vísir sagði frá í gær fékk hann gistingu á hóteli fyrir norðan. „Hann bað um hvort hann mætti ekki bara koma á miðvikudaginn og gista í staðinn og við sögðum bara alveg sjálfsagt,“ segir Gísli.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×