Ég sé ekki eftir neinu! Magnús Guðmundsson skrifar 9. febrúar 2016 07:00 Fræg er saga af þjóðþekktum manni sem þjáðist af nýrnaveiki og var saltmeti manngarminum því hið mesta eitur. Sá var hængur á að ekkert vissi hann betra en saltkjöt og baunir og oftar en ekki, á þessum merkisdegi sem sprengidagur er svo sannarlega, ákvað blessaður maðurinn að láta þetta ekki á móti sér heldur lét undan ást sinni á þessum rammíslenska mat og beið síðan afleiðinganna. Afleiðingin varð oftar en ekki að blessaður maðurinn var sóttur í sjúkrabíl og færður til sjúkrahúsvistar sér til heilsubótar aðframkominn af verkjum og emjandi: „Ég sé ekki eftir neinu!“ Hvort sagan er sönn eða bara óhóflega fært í stílinn er best að hafa sem fæst orð um. En íslensk er hún og það verður ekki af okkur tekið að eftirsjá virðist ekki vera ofarlega í hugum okkar Íslendinga. Við seldum og einkavæddum bankana sem síðan þöndust út á ljóshraða og sprungu í andlitið á okkur en enginn sá eftir neinu. Í fangelsum sitja menn sem telja sig órétti beitta og sjá ekki eftir neinu. Við virðumst vera búin að naga heilbrigðiskerfið inn í merg en enginn virðist sjá eftir neinu. Við höfum lagt ómetanlegar náttúruperlur í rúst í nafni stóriðju og hreppapólitíkur en enginn sér eftir neinu. Niðurskurður í opinberri þjónustu, velferð, menntun og menningu á vegum ríkis og sveitarfélaga virðist fyrir lifandis löngu vera orðinn samgróinn daglegu lífi en ekki er vitað til þess að nokkur sjái eftir nokkrum sköpuðum hlut. Alveg er þetta stórmerkilegt. Það virðist nefnilega vera sprengidagur alla daga í íslensku samfélagi. Hver og einn kappkostar að troða í sig og sína eins og enginn sé morgundagurinn og stjórnsýslan virðist öll miða að því að halda sér á floti og hámarka gróða dagsins í dag, sparnað morgundagsins og kannski í besta falli útkomuna innan kjörtímabilsins. Lengra nær nú hugsunin sjaldnast. Ólíkt því sem var hjá salkjöts- og baunafíklinum er nefnilega hægt að ýta afleiðingunum á undan sér, vona það besta og sjá ekki eftir neinu. Ef eitthvað er að marka skoðanakannanir þá virðist þó stór hluti þjóðarinnar oft og iðulega sjá eftir því hvernig hann ráðstafaði atkvæði sínu í síðustu kosningum og kosningunum þar áður og líka fyrir það. En það er alltaf of seint því fjögur ár eru langur tími í pólitík. Þessu þurfum við að breyta. Við þurfum að breyta hugsuninni, valdajafnvæginu og framtíðinni ef ekki á illa að fara. Því auðvitað er það svo að það vill enginn í raun og veru að afkomendur okkar lendi á sjúkrabörunum fyrir þetta endalausa sprengidagsfyllerí samtímans þar sem allt er étið, engu eirt og enginn sér eftir neinu. Einn sprengidagur á ári er nefnilega alveg nóg og við skulum bara njóta hans fyrst hann er í dag. Verði ykkur að góðu! Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Magnús Guðmundsson Sprengidagur Mest lesið Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Tímamót Jón Steindór Valdimarsson Skoðun Að sinna orkuþörf almennings Kristín Linda Árnadóttir Skoðun Landið helga? Ingólfur Steinsson Skoðun Hvað eru jólin fyrir þér? Hugrún Sigurjónsdóttir Skoðun Menntun fyrir Hans Vögg Þuríður Magnúsína Björnsdóttir Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson Skoðun Forréttindablinda strákanna í Viðskiptaráði Sonja Ýr Þorbergsdóttir Skoðun Þarf alltaf að vera svín? Harpa Kristbergsdóttir Skoðun
Fræg er saga af þjóðþekktum manni sem þjáðist af nýrnaveiki og var saltmeti manngarminum því hið mesta eitur. Sá var hængur á að ekkert vissi hann betra en saltkjöt og baunir og oftar en ekki, á þessum merkisdegi sem sprengidagur er svo sannarlega, ákvað blessaður maðurinn að láta þetta ekki á móti sér heldur lét undan ást sinni á þessum rammíslenska mat og beið síðan afleiðinganna. Afleiðingin varð oftar en ekki að blessaður maðurinn var sóttur í sjúkrabíl og færður til sjúkrahúsvistar sér til heilsubótar aðframkominn af verkjum og emjandi: „Ég sé ekki eftir neinu!“ Hvort sagan er sönn eða bara óhóflega fært í stílinn er best að hafa sem fæst orð um. En íslensk er hún og það verður ekki af okkur tekið að eftirsjá virðist ekki vera ofarlega í hugum okkar Íslendinga. Við seldum og einkavæddum bankana sem síðan þöndust út á ljóshraða og sprungu í andlitið á okkur en enginn sá eftir neinu. Í fangelsum sitja menn sem telja sig órétti beitta og sjá ekki eftir neinu. Við virðumst vera búin að naga heilbrigðiskerfið inn í merg en enginn virðist sjá eftir neinu. Við höfum lagt ómetanlegar náttúruperlur í rúst í nafni stóriðju og hreppapólitíkur en enginn sér eftir neinu. Niðurskurður í opinberri þjónustu, velferð, menntun og menningu á vegum ríkis og sveitarfélaga virðist fyrir lifandis löngu vera orðinn samgróinn daglegu lífi en ekki er vitað til þess að nokkur sjái eftir nokkrum sköpuðum hlut. Alveg er þetta stórmerkilegt. Það virðist nefnilega vera sprengidagur alla daga í íslensku samfélagi. Hver og einn kappkostar að troða í sig og sína eins og enginn sé morgundagurinn og stjórnsýslan virðist öll miða að því að halda sér á floti og hámarka gróða dagsins í dag, sparnað morgundagsins og kannski í besta falli útkomuna innan kjörtímabilsins. Lengra nær nú hugsunin sjaldnast. Ólíkt því sem var hjá salkjöts- og baunafíklinum er nefnilega hægt að ýta afleiðingunum á undan sér, vona það besta og sjá ekki eftir neinu. Ef eitthvað er að marka skoðanakannanir þá virðist þó stór hluti þjóðarinnar oft og iðulega sjá eftir því hvernig hann ráðstafaði atkvæði sínu í síðustu kosningum og kosningunum þar áður og líka fyrir það. En það er alltaf of seint því fjögur ár eru langur tími í pólitík. Þessu þurfum við að breyta. Við þurfum að breyta hugsuninni, valdajafnvæginu og framtíðinni ef ekki á illa að fara. Því auðvitað er það svo að það vill enginn í raun og veru að afkomendur okkar lendi á sjúkrabörunum fyrir þetta endalausa sprengidagsfyllerí samtímans þar sem allt er étið, engu eirt og enginn sér eftir neinu. Einn sprengidagur á ári er nefnilega alveg nóg og við skulum bara njóta hans fyrst hann er í dag. Verði ykkur að góðu!