Handbolti

Einar: Þvílík frammistaða hjá liðinu

Ingvi Þór Sæmundsson í TM-höllinni í Garðabæ skrifar
Einar var líflegur á hliðarlínunni að vanda.
Einar var líflegur á hliðarlínunni að vanda. vísir
"Púlsinn er örugglega helvíti hár en ég er bara í svo góðu formi að maður finnur ekki mikið fyrir þessu," sagði Einar Jónsson, þjálfari Stjörnunnar, léttur í lund eftir eins marks sigur, 32-31, á Fram í 8-liða úrslitum Coca-Cola bikarsins í handbolta í kvöld.

Leikurinn var gríðarlega spennandi og réðust úrslitin ekki fyrr en í framlengingu. Einar var að vonum stoltur af sínum mönnum eftir leikinn.

"Þetta var rosalegur leikur og þvílík frammistaða hjá liðinu," sagði Einar sem er á sínu fyrsta tímabili sem þjálfari Stjörnunnar sem situr á toppnum í 1. deildinni.

Stjörnumenn voru sterkari í fyrri hálfleik og leiddu með fjórum mörkum, 18-14, að honum loknum. Einar var sammála blaðamanni Vísis að munurinn hefði getað verið enn meiri ef markmenn Stjörnunnar hefðu náð sér betur á strik.

"Mér fannst við spila frábærlega í fyrri hálfleik og við áttum að vera með meiri forystu. Auðvitað eru markmennirnir hluti af liðinu en það voru 4-5 boltar sem þeir hefðu auðveldlega getað varið. En það er alltaf þetta ef og hefði og það þýðir ekkert að hugsa um það," sagði Einar.

"Mér fannst við spila heilt yfir vel en við lentum tveimur mönnum færri í seinni hálfleik og það var kannski þá sem Frammararnir komust inn í leikinn. En við sýndum mikinn karakter með því að jafna og klára svo leikinn."

Einar er fyrrverandi þjálfari Fram og hann segir að Stjörnumenn hafi lagt hörkulið að velli í kvöld.

"Frammararnir eru með frábært lið og Gulli (Guðlaugur Arnarsson) er að gera frábæra hluti með liðið. Ég hrikalega stoltur af því að við stóðumst þetta áhlaup sem þeir komu með og við sýndum gríðarlegan karakter með því að klára þetta," sagði Einar.

Valur, Haukar og Grótta eru einnig komin í undanúrslitin sem fara fram í Laugardalshöll 25. febrúar næstkomandi. En hvaða liði vill Einar helst mæta í undanúrslitunum?

"Ég veit það ekki maður, mér er eiginlega alveg sama. Þetta eru allt frábær lið og sennilega þrjú bestu lið landsins eins og staðan er í dag. Við unnum Fram í dag og þessi lið eru svipuð að styrkleika, þannig að við getum unnið hvaða lið sem er," sagði Einar að lokum.


Tengdar fréttir

Grótta flaug í Höllina

Grótta tryggði sér í kvöld sæti í undanúrslitum í bikarkeppni HSÍ, Coca Cola-bikarnum, er liðið valtaði yfir 1. deildarlið Fjölnis, 18-29.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×