Innlent

Aldís færð tímabundið til í starfi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Aldís Hilmarsdóttir
Aldís Hilmarsdóttir vísir
Aldís Hilmarsdóttir, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og yfirmaður fíkniefnadeildar, hefur verið færð tímabundið til í starfi innan lögreglunnar. Var henni tilkynnt um flutninginn í dag sem gildir í sex mánuði.

Þetta staðfestir Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri í samtali við Vísi, en fyrst var greint frá málinu á vef RÚV. Er Aldís flutt til í starfi á grundvelli 19. greinar laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna.

Mun Aldís vera flutt í hóp sem sér um að vinna að mótun nýrrar deildar um skipulagða brotastarfsemi en hún hefur áður komið að vinnu hópsins sem er undir stjórn Öldu Hrannar Jóhannsdóttur, yfirlögfræðings lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Vísir greindi frá því á mánudag að Aldís hefði afþakkað boð um flutning til héraðssaksóknara. Sigríður Björk staðfestir að Aldísi hafi verið boðinn flutningur til þess embættis en kveðst ekki vita hvort að hún hafi afþakkað það boð þar sem Sigríði hafi ekki borist upplýsingar um það.

Í frétt RÚV kemur fram að Aldís hafi leitað til lögfræðings vegna flutningsins og að hún muni krefja lögreglustjórann um rökstuðning vegna málsins. Aðspurð um þetta segir Sigríður Björk að Aldís eigi rétt á slíkum rökstuðningi og fái hann þegar hann verður tilbúinn.

Nýr yfirmaður fíkniefnadeildar verður Runólfur Þórhallsson, aðalvarðstjóri hjá ríkislögreglustjóra, en hann hefur einnig starfað hjá sérstökum saksóknara sem og hjá fíkniefnadeild lögreglunnar.

Sigríður Björk segist hafa metið það sem svo að gott yrði að fá utanaðkomandi aðila sem yfirmann fíkniefnadeildar í sex mánuði en eins og kunnugt er sæta tveir starfsmenn deildarinnar nú rannsókn annars vegar ríkissaksóknara og hins vegar héraðssaksóknara vegna gruns um brot í starfi. Þeir hafa báðir verið leystir frá störfum á meðan rannsókn á málum þeirra fer fram.


Tengdar fréttir

Afþakkaði flutning til héraðssaksóknara

Yfirmaður fíkniefnadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu verður að öllum líkindum færður til í starfi á næstu dögum. Henni hefur staðið til boða að flytja sig nú þegar en lagst gegn því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×