Bíó og sjónvarp

Fast 8 verður tekin upp á Akranesi

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Vin Diesel mun kannski þeysast um á sementsreitnum á Akranesi í vor.
Vin Diesel mun kannski þeysast um á sementsreitnum á Akranesi í vor. Vísir/Akranes/Universal
Hollywood-myndin Fast 8, áttunda myndin í Fast and the Furious myndaflokknum, verður að hluta til tekin upp á Akranesi nú í vor. Þetta staðfestir bæjarstjóri Akranes.

„Ég á von á því að það verði núna í apríl,“ segir Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri á Akranesi, um komur tökuliðsins hingað til lands. 

Íbúar bæjarins heyrðu fyrst af þessu á þorrablóti Skagamanna um helgina en ekki hefur verið tilkynnt formlega um áætlanirnar. Héldu margir að um grín væri að ræða en Regína staðfestir að bæjaryfirvöld hafi verið í samskiptum við undirbúningsaðila myndarinnar. 

„Þetta er auðvitað umfangsmikið verkefni og mun hafa áhrif á verslun og þjónustu í bænum,“ segir Regína. Hún segir að spenna sé fyrir tökunum í bænum. „Við erum mjög áhugasöm.“

Skagamenn eru ekki óvanir kvikmyndaverkefnum en gera má ráð fyrir að tökur Fast 8 verði sýnilegri í bænum en áður hefur verið. „Það var hluti af Sense 8 tekinn upp hérna á sjúkrahúsinu en núna verður þetta aðallega bryggjan og sementsreiturinn sem verður tökusvæðið,“ segir Regína. 

Heimildir Vísis herma að tökuliðið ætli að framkvæma stærstu sprengingu sem gerð hefur verið hér á landi. Regína kannast þó alls ekki við að þetta verði gert á Akranesi en samkvæmt heimildum Vísis fara tökurnar fara fram á tveimur öðrum stöðum á landinu.

Óvíst er hversu umfangsmiklar tökurnar verða og hvort einhverjir leikarar úr myndunum komi hingað til lands eða hvort aðeins verði um að ræða umhverfistökur sem nýttar verða í myndinni. Heimildir Vísis herma að lagt sé upp með að nýta myndefni héðan á grænskjá sem leikarar myndarinnar verði klipptir inn á.

Fast and the Furious myndaflokkurinn hefur notið mikilla vinsælda en hann snýst fyrst og fremst um götukappakstur í hinum ýmsu borgum. Leikarinn Vin Diesel hefur verið aðal maðurinn við gerð myndanna, sem leikari og framleiðandi.

Síðasta myndin í flokknum, sem hét Furious 7, er sjötta tekjuhæsta mynd allra tíma en hún halaði inn 1.515 milljónum dollara, jafnvirði 202 milljarða íslenskra króna, í miðasölu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×