Viðskipti innlent

Margt líkt með Al Thani-málinu og CLN-málinu að mati saksóknara

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Björn Þorvaldsson saksóknari sótti málið fyrir hönd ákæruvaldsins
Björn Þorvaldsson saksóknari sótti málið fyrir hönd ákæruvaldsins Vísir/Stefán

Björn Þorvaldsson, saksóknari sem sótti CLN-málið fyrir hönd ákæruvaldsins, segist telja að margt sé rangt í sýknudómi Héraðsdóms Reykjavíkur yfir þeim Hreiðari Má Sigurðssyni, fyrrverandi forstjóra Kaupþings, Sigurði Einarssyni, stjórnarformanni bankans, og Magnúsi Guðmundssyni, fyrrverandi forstjóra Kaupþings. Hann segir dóminn hafa komið sér á óvart.



„Já, þessi dómur kemur mér á óvart því ég tel svo margt líkt með þessu máli og Al Thani-málinu sem búið er að dæma í Hæstarétti,“ segir Björn í samtali við Vísi.



Aðspurður hvað hann telji líkt með þessum tveimur málum nefnir hann einfaldlega málsatvik, það er hvernig þau lán sem ákært er fyrir bar að. Eins og kunnugt er dæmdi Hæstiréttur þá Hreiðar, Sigurð og Magnús í fangelsi fyrir aðild sína að Al Thani-málinu auk Ólafs Ólafssonar, sem var einn stærsti eigandi Kaupþings, en fjórmenningarnir afplána nú dóma sína í fangelsinu á Kvíabryggju. 



Embætti héraðssaksóknara sem tók við af embætti sérstaks saksóknara um áramótin mun ekki taka ákvörðun um áfrýjun í málinu, heldur er það í höndum ríkissaksóknara.



Héraðssaksóknari kynnir þó dóminn fyrir ríkissaksóknara sem í kjölfarið tekur ákvörðun um áfrýjun en af orðum Björns má ráða að embættið hafi ýmislegt við dóm héraðsdóms að athuga.


Tengdar fréttir

Hreiðar Már, Magnús og Sigurður sýknaðir

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í dag þá Hreiðar Má Sigurðsson, fyrrverandi forstjóra Kaupþings, Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóra Kaupþings í Lúxemborg og Sigurð Einarsson, fyrrverandi stjórnarformann Kaupþings, af ákæru í CLN-málinu svokallaða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×