Innlent

Hæstiréttur tekur sinn tíma í staðfestingu gæsluvarðhalds

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hæstiréttur tekur gæsluvarðhaldsúrskurði fyrir þegar málsaðilar taka þá ákvörðun að áfrýja niðurstöðunni úr héraðsdómi.
Hæstiréttur tekur gæsluvarðhaldsúrskurði fyrir þegar málsaðilar taka þá ákvörðun að áfrýja niðurstöðunni úr héraðsdómi. Vísir/GVA
Karlmaður á fertugsaldri hefur verið í gæsluvarðhaldi á Litla-Hrauni frá því á fimmtudag á grundvelli úrskurðar héraðsdóms. Úrskurðurinn var kærður til Hæstaréttar en enn liggur ekki fyrir hvort Hæstiréttur hafi tekið úrskurðinn fyrir.

Ríkissaksóknari fór fram á að maðurinn yrði úrskurðaður í gæsluvarðhald en á upptöku, sem embættið hefur undir höndum, heyrist hann ræða við rannsóknarlögreglumann úr fíkniefnadeild. Í spjalli þeirra á milli er minnst á peningagreiðslur og leikur grunur á að maðurinn hafi greitt lögreglumanninum fyrir aðstoð.

Gæsluvarðhald yfir manninum rennur út á föstudag.vísir/gva
Hvorki verjandi mannsins né ríkissaksóknari höfðu seinni part dags í gær haft neitt veður af því hvort gæsluvarðhaldið hefði verið tekið fyrir í Hæstarétti. Varðhaldið rennur út á föstudag en alla jafna tekur Hæstiréttur gæsluvarðhaldsúrskurði fyrir fljótlega eftir að þeir eru kveðnir upp í héraði, þ.e. ákveði verjendur að kæra til Hæstaréttar líkt og gert var í þessu tilfelli.

Yfirleitt eru úrskurðirnir í kjölfarið birtir á heimasíðu Hæstaréttar. Svo var ekki gert í tilfelli lögreglumannsins, sem sat í einangrun í rúma viku, og má telja ólíklegt að það verði gert í tilfelli þess sem nú er í varðhaldi. Fór ríkissaksóknari fram á að úrskurðurinn yrði ekki birtur í fyrra tilfellinu á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Má reikna með að sömu rök verði færð fyrir því að úrskurðurinn, sem nú er beðið, verði sömuleiðis ekki birtur.

Sá sem í gæsluvarðhaldi situr er góðkunningi fíkniefnalögreglumanna sem hafa haft hann til rannsóknar um árabil. Hann hefur hlotið dóma fyrir bæði fíkniefnalagabrot og brot á vopnalögum en aldrei setið inni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×