Handbolti

Snorri Steinn: Hefði verið falleg saga að enda þetta í Ríó

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Snorri Steinn er hann meiddist í leiknum í kvöld. Hann stóð svo upp og hélt áfram.
Snorri Steinn er hann meiddist í leiknum í kvöld. Hann stóð svo upp og hélt áfram. vísir/valli
„Ég get ekki gefið neinar skýringar á þessu núna. Þetta var bara hræðilegt,“ segir leikstjórnandinn Snorri Steinn Guðjónsson afar svekktur enda ætlaði hann sér meira með liðinu á þessu móti.

„Þetta var búið nánast strax. Það stóð ekki steinn yfir steini og vörnin léleg.  Við erum hægir í sókninni. Gerum mistök. Þeir jarða okkur í hraðaupphlaupunum. Við erum bara yfirspilaður á öllum sviðum handboltans,“ segir Snorri enn hvernig lendir svona leikreynt lið í því að mæta ekki tilbúnara til leiks en þetta?

Sjá einnig: Aron vildi ekki ræða framtíðina | Stundum betra að bíta í tunguna á sér

„Ég hélt við værum tilbúnir en kannski erum við ekki betri en þetta,“ segir Snorri en blaðamaður stoppar hann af og bendir á að allir viti nú að þeir séu betri en þeir sýndu á þessu móti.

„Við höfum ekki sýnt það. Auðvitað eigum við að vera betri. Ég vildi svo virkilega að ég gæti komið með einhverja góða skýringu á þessu. Við erum brothættir. Sjálfstraustið er lítið. Við þurftum á því að halda að byrja leikinn vel og sérstaklega í vörninni. Það gerist alls ekki og við erum bara kaffærðir á fyrstu tíu mínútunum.“

Sjá einnig: Arnór: Mest svekkjandi að missa af Ólympíuleikunum

Ísland verður ekki með á Ólympíuleikunum í sumar og síðasta tækifæri Snorra til að spila þar er því fokið út um gluggann. Það fannst honum sárt.

„Það er líklegt að þetta hafi verið mitt síðasta tækifæri. Þetta var mitt stærsta markmið sem landsliðsmaður að fara á þessa leika. Það hefði verið falleg saga að klára þetta þar en sú saga verður ekki sögð,“ segir Snorri Steinn en hvernig sér hann sína framtíð með landsliðinu?

„Ég veit það ekki. Mér finnst þetta hvorki vera staður né stund fyrir mig að vera með einhverjar pælingar um það. Maður þarf að fara út í sitt horn og sjá svo til. Draumurinn var Ólympíuleikarnir en nú þarf ég kannski að endurmeta stöðuna.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×