Fótbolti

Beckham: Zidane besti maðurinn í starfið

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Zinedine Zidane og David Beckham með Florentinu Peréz, forseta Real Madrid.
Zinedine Zidane og David Beckham með Florentinu Peréz, forseta Real Madrid. vísir/getty
David Beckham, fyrrverandi samherji Zinedine Zidane hjá Real Madrid, er vægast sagt ánægður með ráðningu Frakkans sem þjálfara Real, en hann var kynntur til sögunnar í gær sem eftirmaður Rafaels Benítez.

Zidane, sem hefur þjálfað B-lið Real Madrid undanfarin misseri, var samherji Beckhams hjá Real Madrid í þrjú ár frá 2004-2006.

„Gæti þetta orðið betra? Maður sem var bestur í íþróttinni sem við öll elskum er að taka við félagi sem ég og mun fleiri elska,“ segir Beckham á Instagram-reikningi sínum þar sem hann setur inn gamla mynd af þeim félögunum að fagna.

„Maður með drifkraft, ástríðu og tekur mistök ekki til greina tekur við af þjálfara sem hefur mikla reynslu og virðingu í leiknum. Þetta er staða sem hann mun hafa yndi af. Þetta er besti maðurinn í starfið,“ segir David Beckham.

Zidane, sem vann spænsku deildina og Meistaradeildina með Real tekur við liðinu í þriðja sæti deildarinnar, en það er fjórum stigum á eftir Atlético Madríd.

„Ég vil þakka ykkur öllum fyrir. Þetta er mikilvægur og tilfinningaþrunginn dagur fyrir mig. Hann er tilfinningaþrungnari en þegar ég varð leikmaður félagsins. Ég mun leggja mig allan fram fyrir félagið,“ sagði Zinedine Zidane á blaðamannafundinum í gær.


Tengdar fréttir

Zidane mætti með alla fjölskylduna | Myndir

Zinedine Zidane var í kvöld kynntur sem nýr þjálfari spænska stórliðsins Real Madrid en hann mun taka við liðinu af Rafael Benitez sem var rekinn eftir aðeins sjö mánuði í starfi.

Zidane vildi fá Casillas aftur til Real Madrid

Spænskir miðlar hafa slegið því upp í dag að Real Madrid hafi ákveðið að reka Rafael Benitez og að Zinedine Zidane taki við liðinu. Florentino Pérez heldur blaðamannafund klukkan 18.30 þar sem hann mun væntanlega staðfesta þær fréttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×