Körfubolti

Haukakonur fá til sín stigahæsta leikmann deildarinnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Chelsie Alexa Schweers skoraði 32,5 stig að meðaltali í leikjunum á móti Haukum fyrir áramót.
Chelsie Alexa Schweers skoraði 32,5 stig að meðaltali í leikjunum á móti Haukum fyrir áramót. Vísir/Anton
Kvennalið Hauka klárar ekki tímabilið án bandarísk leikmanns því Chelsie Alexa Schweers, fyrrum leikmaður Stjörnunnar, hefur fengið leikheimild hjá Haukum. Þetta kemur fram á heimasíðu Körfuknattleiksambands Íslands.

Nýliðar Stjörnunnar létu Chelsie Alexa Schweers fara á dögunum þrátt hún væri að skora 31,0 stig að meðaltali í leik og væri stigahæsti leikmaður Domino´s deildar kvenna.

Það kom mörgum á óvart að Stjarnan léti Schweers fara en hún hafði verið meidd á hendi og missti af leikjum vegna þess. Haukarnir voru hinsvegar fljótir að semja við hana enda er hún frábær leikmaður sem hefur sannað sig í íslensku deildinni.

Chelsie Alexa Schweers var einnig með 7,7 fráköst og 5,3 stoðsendingar í leik en hún næstbesta þriggja stiga skyttan í deildinni með 39 prósent nýtingu í þriggja stiga skotum.

Haukaliðið verður ekki árennilegt í framhaldinu en nú með tvo af þremur framlagshæstu leikmönnum deildarinnar innanborðs.

Fyrir er Helena Sverrisdóttir sem í öðru sæti yfir hæsta framlagið í deildinni en Schweers er þar í þriðja sætinu.

Haukar eru í efsta sæti deildarinnar og hafa aðeins tapað einum leik á öllu tímabilinu. Það er ekki hægt að sjá að Haukakonur tapi fleiri leikjum í vetur nú þegar Schweers er kominn við hlið þeirra Helenu Sverrisdóttur og Pálínu Gunnlaugsdóttur.

Haukaliðið ætti að geta boðið upp á þriggja stiga skotnýtingu í leikjum sínum en í liðinu eru nú fjórar af sex bestu þriggja stiga skyttum Domino´s-deildar kvenna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×