Skoðun

Sjálfshjálparpróf í stjórnmálum

STefán Jón Hafstein skrifar
Traust er það sem við þráum í samfélagsumræðunni þessi misserin. Gott og vel, en hvað með sjálfstraust? Þekkir þú – hinn almenni kjósandi – grundvallarafstöðu þína? Hér er próf um nokkur stórmál (og stigagjöf fylgir á eftir). Hversu mörg eru já-in hjá þér?

10 spurningar um grundvallaratriði

1)Ég vil aukið lýðræði. Ég vil að almenningur geti með undirskriftum eða aðgerðum samkvæmt skilgreindum leikreglum krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um mikilvæg mál. Já eða nei? Við þurfum ekkert að flækja þetta með tæknilegum útfærslum, spurningin er: Já eða nei?

2)Ég vil jafnrétti. Ég vil ekki að fólki sé mismunað á grundvelli kynferðis, kynhneigðar, búsetu, trúar, stöðu eða stéttar. Já eða nei? Við þurfum ekkert að gera fyrirvara um svona grundvallaratriði, annaðhvort er maður með eða á móti: Jafn réttur, jöfn tækifæri? (Fyrir múslima, homma og lesbíur, aðflutta, fátæka og sjúka – alla?)

3)Ég vil að auðlindir Íslands sem ekki eru nú þegar í einkaeign verði skilgreindar sem þjóðareign og nýttar fyrir allan almenning. Þetta má útfæra á ýmsa vegu, en grundvallarreglan er skýr, af eða á, ekkert hálfkák. Já eða nei? Ef þú ert með efasemdir þá er svarið nei.

4)Ég vil meiri efnalegan jöfnuð á Íslandi. Hér koma til álita mörg ,,já, en…“ svör, en hvar ertu í hjarta þér? Eignaskipting á Íslandi er þannig að 1% landsmanna á 25% af eignum. En tekjuskipting er þannig að Ísland er með meiri jöfnuð en þekkist víða um lönd. En hvernig líður þér núna? Meiri jöfnuð? Já eða nei?

5)Viltu bætt heilbrigðiskerfi fyrir almenning jafnvel þótt það kosti hærri skatta á þig persónulega? Hér eru vissulega mörg álitamál – það er nú margt bruðlið sem má hætta við áður en skattar hækka. En spurningin er þessi: Gefum okkur að allt annað í ríkisfjármálum sé óhagganlegt nema heilbrigðiskerfið og skattar, ertu til í að borga meira fyrir betri þjónustu fyrir alla? Já eða nei?

6)Viltu vernda hálendið? Taka frá stóran skika umhverfis jöklana okkar og vernda fyrir virkjunum, háspennulínum og hraðbrautum? Þetta er, viðurkenni ég, spurning með mörgum mögulegum fyrirvörum og útúrdúrum. En setjum bara teikningu af stóru hjarta sem nær yfir 25-30% af Íslandi einmitt í miðju hálendisins og segjum: Hingað og ekki lengra. Já eða nei? Hvar stendur þú?

7)Viltu setja forseta Íslands, Alþingi og ráðherrum strangar siðareglur með viðurlögum? Að umboðsmaður Alþingis, ríkisendurskoðun og Siðfræðistofnun leggi tillögur um slíkar reglur til umræðu fyrir almenning? Slíkar tillögur hafa reyndar komið fram en þarf að taka málið upp að nýju? Já eða nei?

8)Viltu að stjórnarskráin verði endurskoðuð í stórum dráttum í samræmi við tillögur stjórnlagaráðs og niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu um meginatriði þeirra tillagna? Til upprifjunar má nefna skýrari skilgreiningu á embætti forsetans og hlutverki hans, aukinn rétt almennings til að vísa málum til þjóðaratkvæðagreiðslu (sjá að ofan), ákvæði um þjóðareign á auðlindum, (sjá að ofan), jafnara vægi atkvæða, skorður við valdi embætta og stofnana og víðtækari ákvæði um almannarétt. Með öðrum orðum: Viltu endurskoða stjórnarskrána frá grunni og kjósa svo um hana: Já eða nei?

9)Viltu auka sjálfstæði Alþingis gagnvart framkvæmdavaldinu, ríkisstjórn í heild og einstökum ráðherrum? Þetta er hægt að gera eftir mörgum leiðum, en höldum okkur bara við meginlínuna: Aukið sjálfstæði Alþingis, já eða nei?

10)Viltu kjósa um áframhaldandi aðildarviðræður við Evrópusambandið áður en dyrum verður lokað endanlega? (Hér er ekki spurt um afstöðu til ESB, heldur afstöðu til málsmeðferðar og hvort þjóðin eigi að hafa síðasta orðið). Já eða nei?

Hvernig er ég?

Áður en margir fara að fjasa um aðferðafræðina við þetta próf skal ég fyrstur manna viðurkenna að þetta eru engin vísindi. En. Ef þú ert með sjö eða átta eða fleiri já-svör ertu líklega eins og fólk er flest. Ýmsar ólíkar kannanir hafa sýnt já-stuðning meirihluta kjósenda við flest ef ekki öll þessara mála. Og svo hefur verið all lengi. Hvað segir það um lýðræðið í landinu að ekkert gerist til að færa þessi mál í það horf sem almenningur vill?




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×