Fótbolti

Stjóri Celtic stýrði fyrsta leiknum sínum á Íslandi í fyrra | Myndir

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Celtic-menn á æfingu á Samsung-vellinum í gær.
Celtic-menn á æfingu á Samsung-vellinum í gær. vísir/andri marinó
Stjarnan tekur á móti Celtic í seinni leik liðanna í annarri umferð forkeppni Meistaradeildarinnar á Samsung-vellinum annað kvöld. Celtic vann fyrri leikinn 1-0 í Skotlandi.

Norðmaðurinn Ronny Deila, knattspyrnustjóri Celtic, tók við liðinu í fyrra og mætti KR á sama stigi keppninnar í sínum fyrsta mótsleik síðasta sumar.

„Ég er spenntur fyrir þessum leik. Kringumstæðurnar eru allt öðruvísi hjá okkur núna en í fyrra þegar allt var nýtt. Það er svolítið fyndið að vera búinn að stýra liðinu í eitt ár og snúa aftur til nánast sömu borgar. Ég hlakka bara til leiksins því liðið er að bæta sig mikið og tímabilið verður spennandi,“ sagði Deila á blaðamannafundi í gær.

Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, fékk nóg af spurningum um gervigrasið frá skoskum blaðamönnum. Deila hefur ekki sömu áhyggjur af því enda þjálfaði hann Strömsgodset í Noregi sem spilar á gervigrasi.

„Þið vitið að ég er hliðhollur gervigrasi. Það er betra að spila á góðum gervigrasvelli en slæmum grasvelli. Best er þó auðvitað að spila á góðu grasi eins og á Celtic Park,“ sagði Deila sem telur sína leikmenn klára í gervigrasslaginn: „Góð lið sigra sama á hvaða velli þau spila,“ sagði Deila.

Hér að ofan má myndir frá æfingu skosku meistaranna á Samsung-vellinum í gærkvöldi sem Andri Marinó Karlsson tók.


Tengdar fréttir

Præst setur pressu á Silfurskeiðina

Michael Præst, fyrirliði Stjörnunnar, sagði skoskum blaðamönnum að stuðningurinn við Íslandsmeistarana úr stúkunni ætti eftir að koma þeim á óvart.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×