Skoðun

Slæm vinnu­brögð vegna ráðningar sviðsstjóra

Kjartan Magnússon skrifar

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa gert alvarlegar athugasemdir við óviðunandi vinnubrögð borgarstjóra og formanns borgarráðs við ráðningu sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, stærsta fagsviðs Reykjavíkurborgar.



Ætlun borgarstjóra var að gengið yrði frá umræddri ráðningu á fundi borgarráðs sl. fimmtudag þrátt fyrir að málið væri ekki á útsendri dagskrá með fundarboði og án þess að borgarráðsfulltrúar hefðu fengið tækifæri til að kynna sér gögn málsins. Síðdegis á miðvikudag féllust fulltrúar Sjálfstæðisflokksins á að málinu yrði bætt við á dagskrá fundarins. Þeim voru hins vegar ekki afhent nein gögn um málið fyrir fundinn og hafa þó allar umsóknir ásamt greinargerðum umsækjenda legið fyrir síðan 24. júní þegar umsóknarfrestur rann út. Borgarstjóri hafði því rúmar þrjár vikur til að fara yfir gögnin en ætlaðist til þess að borgarráðsfulltrúar samþykktu tillögu hans án þess að hafa fengið tækifæri til að kynna sér þau.



Tóku málið af dagskrá

Samkvæmt 15. gr. sveitarstjórnarlaga segir að fundarboði skuli fylgja dagskrá fundar og þau gögn, sem nauðsynleg eru til að sveitarstjórnarmenn geti tekið upplýsta afstöðu til mála.

Til að mótmæla ónógri upplýsingagjöf og flausturslegum vinnubrögðum lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram bókun á fundinum á fimmtudag og óskuðu eftir frestun málsins og að fá gögnin afhent. Formaður borgarráðs neitaði hins vegar að taka við bókuninni og tók málið af dagskrá þrátt fyrir að það hefði þá þegar verið drjúgan tíma til umræðu á fundinum. Voru gögnin þá afhent og aukafundur boðaður í ráðinu sólarhring síðar eða með minnsta mögulega fyrirvara. Á þeim fundi lögðu fulltrúar sjálfstæðismanna til að annar umsækjandi yrði ráðinn í stöðuna en borgarstjóri vildi. Var þeirri tillögu illa tekið af forystumönnum meirihlutans. Fékkst hún ekki einu sinni afgreidd en tillaga borgarstjóra var keyrð í gegn.

Það að borgarstjóri hugðist ganga gegn þeirri reglu að borgarráðsmenn gætu kynnt sér gögn þessa mikilvæga máls, sýnir að hann lítur ekki á borgarráð sem stjórnvald, er tekur sjálfstæðar ákvarðanir, heldur stimpil sem eigi að staðfesta ákvarðanir sem hann hefur þegar tekið. Ekki verður hjá því komist að gagnrýna harðlega þessi flausturslegu og gerræðislegu vinnubrögð.



Þetta mál er því miður aðeins eitt af mörgum dæmum um sleifarlag og óviðunandi vinnubrögð í stjórnsýslu Reykjavíkurborgar undir stjórn vinstri meirihlutans.




Skoðun

Sjá meira


×