Skoðun

Hvers vegna stefndi BHM ríkinu?

Þórunn Sveinbjarnardóttir skrifar
BHM hefur höfðað mál á hendur íslenska ríkinu vegna laga nr. 31/2015 sem afgreidd voru á Alþingi 13. júní sl. Beiðni um flýtimeðferð fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur var samþykkt og málflutningur verður fyrir dómnum 3. júlí nk. Það gerist ekki á hverjum degi að stéttarfélög neyðist til að stefna ríkinu – sem í þessu tilviki er vinnuveitandi – fyrir dómstóla en ólög þau er Alþingi setti til að banna verkfallsaðgerðir félaga innan BHM gerðu það óhjákvæmilegt.

Að mati BHM felur lagasetningin í sér ólögmætt inngrip í starfsemi BHM sem frjálsra og löglegra félagasamtaka. Lögin brjóti gegn 74. gr. Stjórnarskrárinnar og 11. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Þá brjóti þau einnig gegn samþykktum ILO og Félagsmálasáttmála Evrópu.

Lagasetningin er að mati BHM reist á ómálefnalegum sjónarmiðum og að engu hafandi. Þar má fyrst benda á að inn í lögin eru skrifaðar forsendur niðurstöðu væntanlegs gerðardóms og þess vandlega gætt að ekki sé hægt að miða við kjarasamninga sem nýlega hafa verið gerðir við aðrar sambærilegar háskólamenntaðar stéttir, t.d. lækna og framhaldsskólakennara.

BHM telur að því fari fjarri að verkfallsaðgerðir félaga innan vébanda þess hafi stofnað öryggi í hættu. Undanþágunefndir afgreiddu mörg hundruð beiðnir á meðan á verkfallsaðgerðum stóð, gagngert í því augnamiði að koma í veg fyrir að neyðarástand skapaðist. Ekki verður því séð að fullnægjandi rök hafi verið færð fyrir því að verkfallsaðgerðir félaga innan BHM hafi stefnt þessari þjónustu í hættu.

Lögin eru lítið annað en gróf aðför að samnings- og verkfallsrétti háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna innan BHM. Og enn skal minnt á það að ríkisvaldið gerði ekkert til þess að afstýra verkfallsaðgerðum, né heldur gerði það tilraun til þess að mæta kröfum BHM á meðan 10 vikna langt verkfall stóð yfir. Það undirstrikar þær sýndarviðræður sem í gangi voru. Ríkið ber algjöra ábyrgð á þeirri stöðu sem upp er komin. Það hefur skilað auðu sem vinnuveitandi þúsunda félagsmanna BHM.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×