Geðveilur, manntafl og tónlist Þorvaldur Gylfason skrifar 28. maí 2015 07:00 Þótt reitir skákborðsins séu bara 64 eru engar tvær skákir eins. Þessi takmarkalausa fjölbreytni skáklistarinnar hefur leitt suma að þeirri niðurstöðu að skák geti framkallað geðveiki, og eru þá nokkrir geðveilir skáksnillingar nefndir til sögunnar og einnig smásaga Stefans Zweig, Manntafl, sem til er í íslenzkri þýðingu Þórarins Guðnasonar læknis og hefur bæði verið kvikmynduð og sviðsett í Borgarleikhúsinu. Skákin er ekki ein á báti. Í vestrænni tónlist eru tónar tónstigans bara tólf, en samt eru engin tvö tónverk eins nema annað þeirra sé stolið. Ótæmandi fjölbreytni tónlistarinnar vekur yfirleitt engar grunsemdir um að valda geðveiki. Mörg önnur fyrirbæri mannlífsins og náttúrunnar búa einnig yfir óendanlegri fjölbreytni líkt og manntafl og tónlist, t.d. mannlífið sjálft. Engir tveir menn eru eins nema þeir séu eineggja tvíburar. Óþrjótandi fjölbreytni reynist fæstum þrúgandi, heldur þvert á móti. Hún er eðlilegt ástand.Bobby Fischer Þessar hugrenningar kvikna m.a. af bandarískri heimildarmynd frá 2011, Bobby Fischer Against the World. Fischer er mörgum Íslendingum minnisstæður, fyrst fyrir heimsmeistaraeinvígið gegn Boris Spasskí í Laugardalshöllinni í Reykjavík sumarið 1972 og síðan fyrir síðustu æviárin þegar hann bjó á Íslandi 2004-2008, útlægur frá Bandaríkjunum, heimalandi sínu, fyrir að hafa brotið gegn viðskiptabanni Bandaríkjanna gegn Júgóslavíu með því að tefla þar aftur við Spasskí. Þótti mörgum þá hafa fallið talsvert á fyrri snilld beggja. Einvígi Fischers og Spasskís 1972 var ævintýri líkast, en þó ekki vegna ólíkindaláta Fischers öndvert fágaðri framkomu Spasskís sem lét ljúfmannlega undan kenjum Fischers og sagði síðar að það hefði e.t.v. kostað hann sigur. Spasskí hafði aldrei áður tapað fyrir Fischer. Andrúmsloftið í höllinni var þvílíkri spennu þrungið að heyra mátti saumnál detta í mannþrönginni, þótt langur tími liði oft á milli leikja. Fischer varð stöku sinnum á vegi mínum í Reykjavík. Hann birtist á málstofu í hagfræði í Háskólanum, því að þar voru þá staddir tveir Nóbelsverðlaunahafar. Þar þóttist Fischer finna viðeigandi félagsskap.John Nash Annars snillings er vert að minnast nú af öðru tilefni. John Nash stærðfræðingur sem fékk Nóbelsverðlaun í hagfræði 1994 fórst um daginn í bílslysi ásamt konu sinni, Alice. Þau voru á heimleið frá Noregi þar sem Nash voru veitt Abelsverðlaunin sem sumir kalla Nóbelsverðlaun stærðfræðinga. Ég sá Nash fyrst tilsýndar á námsárum mínum í Princeton fyrir 40 árum, þar sem hann flæktist um háskólalóðina, fárveikur að sjá. Hann hafði rösklega tvítugur skrifað 27 blaðsíðna doktorsritgerð þar sem hann bætti nýjum víddum við leikjafræði og lagði grunninn að eigin frægð. Leikjafræði fjallar um viðbrögð manna hvers við atferli annars. Henni má beita t.d. við að greina eða jafnvel girða fyrir vinnudeilur. Átök um kaup og kjör eru ekki aðeins átök milli launþega og vinnuveitenda, heldur stundum einnig innbyrðis átök launþega um launahlutföll eins og t.d. nú þar sem einn hópur fer fram á sömu kjarabót og annar hefur samið um. Nash sýktist af geðklofa um þrítugt og glímdi við sjúkdóminn í 30 ár. Um sextugt tók honum að batna aftur án læknishjálpar eða lyfjagjafar sem er sjaldgæft. Ég hitti hann í Stokkhólmi 1994 þegar hann kom þangað að taka við Nóbelsverðlaununum. Hann var þá fullfrískur að sjá og heyra. Nemandi hans og samkennari, Harold Kuhn, sem lézt í fyrra, flutti Nóbelsfyrirlesturinn í Stokkhólmi fyrir hönd Nash sem var í salnum. Eins og til að undirstrika að hann væri fær í flestan sjó notaði Nash heimsóknina til Svíþjóðar m.a. til að halda málstofu í eðlisfræðideildinni í Uppsölum. Nóbelsverðlaunin auðvelduðu honum og Alice, sem studdi hann í blíðu og stríðu, að bæta sér upp að hluta árin 30 sem þau misstu í veikindin. Sonur þeirra glímir við sama sjúkdóm og faðirinn. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Nóbelsverðlaun Þorvaldur Gylfason Mest lesið Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun „Við andlát manns lýkur skattskyldu hans“ Þórður Gunnarsson Skoðun Nýtanleg verðmætasköpun um allt land Jóhann Frímann Arinbjarnarson Skoðun Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Dýrkeyptur aðgangur Stella Guðmundsdóttir Skoðun Gæti aukin einkavæðing og skólaval í grunnskólakerfinu bætt námsárangur og aukið jafnrétti? Jón Páll Haraldsson,Linda Heiðarsdóttir,Ómar Örn Magnússon Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Íslenskufræðingurinn Sigmundur Davíð Hákon Darri Egilsson Skoðun Óstjórn í húsnæðismálum Ragnar Þór Ingólfsson Skoðun
Þótt reitir skákborðsins séu bara 64 eru engar tvær skákir eins. Þessi takmarkalausa fjölbreytni skáklistarinnar hefur leitt suma að þeirri niðurstöðu að skák geti framkallað geðveiki, og eru þá nokkrir geðveilir skáksnillingar nefndir til sögunnar og einnig smásaga Stefans Zweig, Manntafl, sem til er í íslenzkri þýðingu Þórarins Guðnasonar læknis og hefur bæði verið kvikmynduð og sviðsett í Borgarleikhúsinu. Skákin er ekki ein á báti. Í vestrænni tónlist eru tónar tónstigans bara tólf, en samt eru engin tvö tónverk eins nema annað þeirra sé stolið. Ótæmandi fjölbreytni tónlistarinnar vekur yfirleitt engar grunsemdir um að valda geðveiki. Mörg önnur fyrirbæri mannlífsins og náttúrunnar búa einnig yfir óendanlegri fjölbreytni líkt og manntafl og tónlist, t.d. mannlífið sjálft. Engir tveir menn eru eins nema þeir séu eineggja tvíburar. Óþrjótandi fjölbreytni reynist fæstum þrúgandi, heldur þvert á móti. Hún er eðlilegt ástand.Bobby Fischer Þessar hugrenningar kvikna m.a. af bandarískri heimildarmynd frá 2011, Bobby Fischer Against the World. Fischer er mörgum Íslendingum minnisstæður, fyrst fyrir heimsmeistaraeinvígið gegn Boris Spasskí í Laugardalshöllinni í Reykjavík sumarið 1972 og síðan fyrir síðustu æviárin þegar hann bjó á Íslandi 2004-2008, útlægur frá Bandaríkjunum, heimalandi sínu, fyrir að hafa brotið gegn viðskiptabanni Bandaríkjanna gegn Júgóslavíu með því að tefla þar aftur við Spasskí. Þótti mörgum þá hafa fallið talsvert á fyrri snilld beggja. Einvígi Fischers og Spasskís 1972 var ævintýri líkast, en þó ekki vegna ólíkindaláta Fischers öndvert fágaðri framkomu Spasskís sem lét ljúfmannlega undan kenjum Fischers og sagði síðar að það hefði e.t.v. kostað hann sigur. Spasskí hafði aldrei áður tapað fyrir Fischer. Andrúmsloftið í höllinni var þvílíkri spennu þrungið að heyra mátti saumnál detta í mannþrönginni, þótt langur tími liði oft á milli leikja. Fischer varð stöku sinnum á vegi mínum í Reykjavík. Hann birtist á málstofu í hagfræði í Háskólanum, því að þar voru þá staddir tveir Nóbelsverðlaunahafar. Þar þóttist Fischer finna viðeigandi félagsskap.John Nash Annars snillings er vert að minnast nú af öðru tilefni. John Nash stærðfræðingur sem fékk Nóbelsverðlaun í hagfræði 1994 fórst um daginn í bílslysi ásamt konu sinni, Alice. Þau voru á heimleið frá Noregi þar sem Nash voru veitt Abelsverðlaunin sem sumir kalla Nóbelsverðlaun stærðfræðinga. Ég sá Nash fyrst tilsýndar á námsárum mínum í Princeton fyrir 40 árum, þar sem hann flæktist um háskólalóðina, fárveikur að sjá. Hann hafði rösklega tvítugur skrifað 27 blaðsíðna doktorsritgerð þar sem hann bætti nýjum víddum við leikjafræði og lagði grunninn að eigin frægð. Leikjafræði fjallar um viðbrögð manna hvers við atferli annars. Henni má beita t.d. við að greina eða jafnvel girða fyrir vinnudeilur. Átök um kaup og kjör eru ekki aðeins átök milli launþega og vinnuveitenda, heldur stundum einnig innbyrðis átök launþega um launahlutföll eins og t.d. nú þar sem einn hópur fer fram á sömu kjarabót og annar hefur samið um. Nash sýktist af geðklofa um þrítugt og glímdi við sjúkdóminn í 30 ár. Um sextugt tók honum að batna aftur án læknishjálpar eða lyfjagjafar sem er sjaldgæft. Ég hitti hann í Stokkhólmi 1994 þegar hann kom þangað að taka við Nóbelsverðlaununum. Hann var þá fullfrískur að sjá og heyra. Nemandi hans og samkennari, Harold Kuhn, sem lézt í fyrra, flutti Nóbelsfyrirlesturinn í Stokkhólmi fyrir hönd Nash sem var í salnum. Eins og til að undirstrika að hann væri fær í flestan sjó notaði Nash heimsóknina til Svíþjóðar m.a. til að halda málstofu í eðlisfræðideildinni í Uppsölum. Nóbelsverðlaunin auðvelduðu honum og Alice, sem studdi hann í blíðu og stríðu, að bæta sér upp að hluta árin 30 sem þau misstu í veikindin. Sonur þeirra glímir við sama sjúkdóm og faðirinn.
Gæti aukin einkavæðing og skólaval í grunnskólakerfinu bætt námsárangur og aukið jafnrétti? Jón Páll Haraldsson,Linda Heiðarsdóttir,Ómar Örn Magnússon Skoðun
Gæti aukin einkavæðing og skólaval í grunnskólakerfinu bætt námsárangur og aukið jafnrétti? Jón Páll Haraldsson,Linda Heiðarsdóttir,Ómar Örn Magnússon Skoðun