Viðskipti innlent

ESB nær samkomulagi gegn skattsvikum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Moscovici vill stuðla að sanngjarnara skattkerfi í Evrópu.
Moscovici vill stuðla að sanngjarnara skattkerfi í Evrópu. Vísir/AFP
Evrópusambandið og Sviss hafa undirritað samkomulag sem miðar að því að draga úr skattsvikum, að því er fram kemur á vef BBC. Frá og með árinu 2018 verður íbúum í Evrópusambandsríkjum bannað að fela óuppgefnar launaupphæðir í svissneskum bönkum.

Stjórnvöld í Sviss og stjórnvöld í ríkjum Evrópusambandsins munu því skiptast á upplýsingum um bankareikninga til að vinna að þessu marki.

„Þetta nýja gagnsæi ætti ekki einungis að gefa aðildarríkjunum aukið færi á að finna skattsvikara og fást við þá. Það ætti líka að fæla fólk frá því að fela tekjur og eignir erlendis í því skyni að sleppa undan skatti,“ segir í yfirlýsingu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

Framkvæmdastjórnin á í sams konar samningaviðræðum við Andorra, Liechtenstein og Mónakó.

Pierre Moscovici, æðsti yfirmaður fjármála- og efnahagsmála hjá Evrópusambandinu, segir að þessi samningur sé enn ein aðgerðin gegn skattsvikurum og eitt skrefið enn í átt að sanngjarnara skattkerfi í Evrópu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×