Erlent

Kína hrellir nágrannaríkin

guðsteinn bjarnason skrifar
Nýliðar i hernum. Kínverskur hermaður í sjóhernum, hvítklæddur, innan um nemendur í herskóla.
Nýliðar i hernum. Kínverskur hermaður í sjóhernum, hvítklæddur, innan um nemendur í herskóla. fréttablaðið/EPA
Kínastjórn hefur kynnt nýja hernaðaráætlun, nágrannaríkjum sínum til mikillar hrellingar enda áherslan ekki síst lögð á útþenslustefnu Kínverja í Suður-Kínahafi.

Þar í hafinu eru hinar umdeildu Spratlys-eyjar, sem Kínverjar gera tilkall til rétt eins og Víetnam, Filippseyjar, Brúnei, Malasía og Taívan. Þar eru einnig fleiri smáeyjar sem nokkur lönd gera tilkall til.

Kínverjar segjast nú ætla að búa sig undir sóknarhernað í hafi, frekar en eingöngu varnarhernað. Undanfarin ár hafa Kínverjar eflt sjóher sinn verulega, sett meðal annars á flot ný herskip, kafbáta og flugmóðurskip. Þá hafa þeir í hyggju að reisa tvo stóra vita á Spratlys-eyjum.

Nágrannaríkin hafa áhyggjur af þessari þróun og boða aukið samstarf til mótvægis.

Í nýju hernaðaráætluninni er hafið skilgreint sem eitt af helstu átakaefnum framtíðar, en einnig segjast Kínverjar búa sig undir átök um geiminn, kjarnorku og internetið. Ætlunin er að styrkja stöðu Kína á öllum þessum sviðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×