Handbolti

Ekki ólíklegt að Pétur fari í atvinnumennsku

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Nýliðar Aftureldingar komust alla leið í úrslit Olís-deildarinnar á nýafstöðnu tímabili en biðu þar lægri hlut fyrir Haukum, 3-0.
Nýliðar Aftureldingar komust alla leið í úrslit Olís-deildarinnar á nýafstöðnu tímabili en biðu þar lægri hlut fyrir Haukum, 3-0. fréttablaðið/ernir
Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar í Olís-deild karla, gerir ráð fyrir því að Mosfellingar tefli fram svipuðu liði á næsta tímabili.

„Eins og staðan er núna er búið að semja við alla leikmenn, en Kristinn Hrannar Bjarkason er á leið utan í nám og Hrafn Ingvarsson íhugar að leggja skóna á hilluna í bili,“ sagði Einar í samtali við Fréttablaðið í gær.

Afturelding kom liða mest á óvart í vetur og komst alla leið í úrslit Íslandsmótsins en Mosfellingar voru nýliðar í Olís-deildinni á nýafstöðnu tímabili.

Lykilmenn á borð við Örn Inga Bjarkason og nafnana Jóhann Jóhannsson og Jóhann Gunnar Einarsson eru búnir að semja við liðið að nýju og þá verður markvörðurinn Pálmar Pétursson áfram í herbúðum Aftureldingar. Ekki er þó ljóst hvort línumaðurinn öflugi, Pétur Júníusson, verður áfram í Mosfellsbænum en erlend félög hafa sýnt honum áhuga.

„Það eru einhver lið að fylgjast með honum en það er ekkert komið inn á borð hjá okkur,“ sagði Einar og bætti við:  „Við vinnum eins og hann verði áfram en það er ekkert ólíklegt að hann fari í atvinnumennsku á næsta árinu.“

Afturelding fékk línumanninn Þránd Gíslason frá Akureyri í vor en Einar gerir ekki ráð fyrir því að styrkja liðið frekar þótt hann útiloki ekkert í þeim efnum.

„Við lögðum aðallega áherslu á að halda sama liði en það var ekkert útséð með það,“ sagði Einar að lokum.- iþs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×