Handbolti

Haukarnir geta jafnað tíu ára gamalt met í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Haukamennirnir Adam Haukur Baumruk og Heimir Óli Heimisson taka vel á móti Jóhanni Gunnari Einarssyni úr Aftureldingu.
Haukamennirnir Adam Haukur Baumruk og Heimir Óli Heimisson taka vel á móti Jóhanni Gunnari Einarssyni úr Aftureldingu. Vísir/Stefán
Haukar eru á góðri leið með að halda upp á tíu ára afmæli „fullkomna“ Íslandsmeistaratitilsins frá 2005 með viðeigandi hætti, eða með því að endurtaka leikinn og vinna sjö fyrstu leiki sína í úrslitakeppni. Haukar unnu alla sjö leiki sína í úrslitakeppninni 2005 en þá þurfti að vinna leik færra í undanúrslitunum. Haukaliðið getur því ekki aðeins jafnað metið í kvöld heldur einnig bætt það á mánudagskvöldið.

Haukaliðið í ár hefur unnið fjóra af þessum sex leikjum á útivelli en leikurinn í kvöld er hins vegar í Schenker-höllinni á Ásvöllum og hefst klukkan 19.30.

Haukar komust líka í 1-0 í lokaúrslitunum fyrir tíu árum með því að vinna eins marks sigur í fyrsta leik og þá var Jónas hetja liðsins en ekki Janus, eins og í fyrrakvöld.

Janus Daði Smárason skoraði sigurmarkið á Varmá á miðvikudagskvöldið en í leik eitt fyrir áratug var það varamarkvörðurinn Jónas Stefánsson sem varði lokaskot leiksins og kom í veg fyrir að stórskyttan Tite Kalandadze kæmi leiknum í framlengingu.

Það er margt líkt með sigurgöngu Hauka í ár og fyrir tíu árum því bæði lið sópuðu út nágrannaliðinu FH og frændliðinu Val á leið sinni í úrslitaeinvígið þar sem liðið mætti síðan liði sem hafði bætt stöðu sína mikið á milli ára.

Tvö af þremur liðum sem hafa unnið sex fyrstu leiki sína í úrslitakeppni hafa farið alla leið og unnið Íslandsmeistaratitilinn, eða öll nema Valsmenn, sem misstu af titlinum vorið 2002 þrátt fyrir slíka draumabyrjun. Valsmenn unnu þá fyrstu tvö einvígi sín 2-0 og komust síðan í 2-0 á móti KA í lokaúrslitunum.

Valsmenn áttu þá eftir tvo heimaleiki á móti KA en norðanmönnum tókst að vinna þrjá síðustu leikina og tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn á eftirminnilegan hátt í troðfullu gamla Valsheimilinu á Hlíðarenda.



Flestir sigrar í röð inn í úrslitakeppni:

7 - Haukar 2005  (Íslandsmeistari)

6 - Haukar 2015 (1-0 yfir í lokaúrslitum)

6 - Valur 2002 (2. sæti)

6 - HK 2012 (Íslandsmeistari)

5 - Valur 1993 (Íslandsmeistari)

4 - KA 2002 (Íslandsmeistari)

4 - ÍR 2003 (2. sæti)

Leikir Hauka í úrslitakeppninni 2015:

8 liða úrslit

3 marka útisigur á FH (32-29)

4 marka heimasigur á FH (28-24)

Undanúrslit

8 marka útisigur á Val (32-24)

2 marka heimasigur á Val (21-19)

7 marka útisigur á Val (29-22)

Lokaúrslit

1 marks útisigur á Aftureldingu (23-22)

Leikir Hauka í úrslitakeppninni 2005:

8 liða úrslit

7 marka heimasigur á FH (29-22)

4 marka útisigur á FH (34-30, framlengt)

Undanúrslit

4 marka heimasigur á Val (29-25)

2 marka útisigur á Val (29-27)

Lokaúrslit

1 marks heimasigur á ÍBV (31-30)

4 marka útisigur á ÍBV (39-35)

4 marka heimasigur á ÍBV (28-24)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×