Sport

Ef það býðst að rota hann þá mun ég gera það

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Kolli er búinn að æfa gríðarlega vel og ætlar sér heim frá Finnlandi með annan vinning í töskunni.
Kolli er búinn að æfa gríðarlega vel og ætlar sér heim frá Finnlandi með annan vinning í töskunni. Vísir/Valli
„Ég er búinn að æfa á fullu núna í sjö vikur fyrir þennan bardaga og er eins tilbúinn og hægt er,“ segir eini íslenski atvinnumaðurinn í hnefaleikum, Gunnar Kolbeinn Kristinsson, sem er iðulega kallaður Kolli.

Á laugardaginn kemur mun Kolli stíga inn í hringinn í Lapua í Finnlandi og mæta Hvít-Rússanum Artsiom Charniakevich. Þetta verður þriðji atvinnumannabardagi Garðbæingsins en hann hefur áður unnið Lettana Janis Ginters og Edgar Kalnas.

Æft gríðarlega vel

„Ég æfi tvisvar á dag alla virka daga og svo einu sinni á laugardögum. Æfingarnar eru venjulega í kringum tvo tíma þannig að ég æfi kannski fjóra tíma á dag. Ég er búinn að æfa svo vel að ég er miklu meira tilbúinn núna en fyrir síðasta bardaga. Ég er líka búinn að venjast því betur að æfa svona stíft og líkaminn er að aðlagast. Ég hef fundið að ég er að bæta mig mikið á öllum sviðum. Í styrk, fótavinnu, tækni og þreki.“

Gunnar Kolbeinn hefur notið þess að geta æft aðeins með Skúla Ármannssyni sem keppti í atvinnumannabardaga í Bandaríkjunum árið 2008 og vann. Gunnar er 198 sentimetrar að hæð og 111 kíló og hefur vantað æfingafélaga í sama þyngdarflokki. Það hefur hann fengið með Skúla.

„Það var mjög gott að fá Skúla á æfingar en ég steig þrisvar í hringinn með honum. Það gerði gæfumuninn að fá Skúla en það hafa fáir boxað jafn margar lotur á æfingum á Íslandi og Skúli.“

Kolli er orðinn 27 ára gamall en hann keppti 37 sinnum í áhugamannahnefaleikum áður en hann fór í atvinnumannahnefaleikana. Aldurinn er ekki að vinna með honum og hann ætlar að reyna að komast eins langt og hann getur á sem skemmstum tíma. Það kallar á reglulega bardaga.

„Ég er að reyna að hafa átta vikur á milli bardaga á þessu ári. Sjálfstraustið er í botni hjá mér eftir góða bardaga og fínar æfingar. Í fyrsta bardaganum var ég að sanna fyrir mér að ég gæti verið atvinnumaður og í seinni bardaganum þurfti ég að sanna að fyrri bardaginn hefði ekki verið heppni. Nú þarf ég að halda áfram á sömu braut og ég ætla helst að keppa svo aftur í júní,“ segir Kolli ákveðinn.

Gunnar Kolbeinn Kristinsson.Vísir/Valli
Andstæðingur Kolla frá Hvíta-Rússlandi er talsvert minni en hann og um tíu kílóum léttari. Hann hefur barist tíu sinnum og aðeins unnið einu sinni. Er þetta ekkert of léttur andstæðingur?

„Nei, ég held nú ekki. Hann hefur tapað fyrir góðum strákum sem eru enn ósigraðir. Svo er þetta ekki upphaflegur andstæðingur heldur þriðja val. Við vorum með tvo aðra í sigtinu sem gátu ekki barist og þessi kemur því inn í staðinn. Hann er ekkert lamb að leika við. Óhræddur við að fara í tveggja metra einstakling með tveggja mánaða fyrirvara. Ég má ekkert við því að vanmeta þennan gaur. Ef allt er eðlilegt þá ætti ég samt að vinna hann,“ segir Kolli borubrattur en er stefnan að rota andstæðinginn?

„Ef það býðst að rota hann þá mun ég gera það. Það er alltaf best að enda bardaga á rothöggi en ef það gerist ekki þá er það í lagi svo lengi sem ég vinn.“

Getur ekki beðið

Gunnar Kolbeinn og hans teymi fljúga út til Finnlands á föstudag. Koma nánast beint í vigtunina og svo er bardaginn daginn eftir. Okkar maður er spenntur og segir að þetta verði bara skemmtilegra með hverjum bardaganum.

„Það er erfitt að útskýra tilfinninguna. Þetta er bæði skemmtilegt og gaman. Það er í raun og veru ólýsanleg upplifun að berjast og vinna. Ég get ekki beðið eftir þessu.“

Box



Fleiri fréttir

Sjá meira


×