Stóri bróðir fylgist með Kjartan Már Ómarsson skrifar 15. apríl 2015 11:30 Edward Snowden og unnusta hans, Lindsay Mills, í Rússlandi. Citizenfour Leikstjórn og handrit:Laura Poitras Klipping: Matthilde Bonnefoy Aðalhlutverk: Edward Snowden, Glenn Greenwald, William Binney, Jacob Appelbaum, Ewin MacAskill Þú skalt gera þér grein fyrir að héðan í frá eru hver landamæri sem þú ferð yfir, hver einustu kaup sem þú gerir, öll símtöl sem þú átt, allir fjarskiptaturnar sem þú kannt að eiga leið hjá, allir vinir þínir, hver einasta grein sem þú skrifar, vefsíða sem þú ferð á og tölvupóstur og pakkar sem þú sendir í höndum kerfis sem er ótakmarkað í gagnaöflun sinni þrátt fyrir að varnir þess séu það ekki. Þessi orð eru fengin úr kvikmynd Potras þar sem hún vitnar í bréf sem bandaríski uppljóstrarinn Edward Snowden sendir henni áður en tökur á Citizenfour hefjast og eru lýsandi fyrir innihald myndarinnar. Þetta er heimildarmynd, en til þess að komast sem næst kviku væri líklega réttast að kalla myndina heimildartrylli. Hún er nefnilega fræðandi og ógnvekjandi í senn. Citizenfour er lokahlutinn í þríleik Poitras sem fjallar um Bandaríkin í kjölfar árásanna á tvíburaturnana 2001 og hvernig barátta Bandaríkjamanna gegn hryðjuverkum hefur orðið til þess að þeir hafa lagt ofuráherslu á eftirlit og eftirlitsaðgerðir. Alsjáin er rafrænn raunveruleiki. Flestir kannast við sögu Snowdens upp að vissu marki en það er eitt að kannast við hluti og annað að sjá virkilega hvernig þeir gerðust. Myndin er tekin upp í heimildarmyndastíl sem kallast á við franska sannleiksbíóið þar sem tökumaður lætur lítið fyrir sér fara. Þetta er eins konar fluga-á-vegg-nálgun sem hefur þau áhrif að áhorfanda finnst eins og hann sé að guða á glugga lífsins. Á stundum er upptakan lítið eitt groddaraleg líkt og um heimavídjóupptöku sé að ræða. Þysjað er snögglega inn eða út, og í stað þess að klippa á milli persóna í tvenndarskotum er hreinlega skimað snögglega á milli. Poitras vinnur á vitsmunalegan hátt úr klippingum þar sem hún sýnir fram á lygar og þversagnir ýmissa ráðamanna með skeytingunni einni saman. Það er ekki verið að eyða miklu púðri í uppstillingar, sem er ákveðin fagurfræði í sjálfu sér. Fyrir vikið er eins og heimildargildið aukist, því það sem er ekki (of) uppstillt hlýtur hreinlega að vera meira satt. Að því sögðu er einnig hægt að halda því fram að fagurfræðileg naumhyggja myndarinnar þjóni þeim tilgangi að undirstrika aðalatriðin. Það eru umfram allt upplýsingarnar sem skipta máli en ekki útlitið. Grunnur myndarinnar liggur í Snowden sjálfum og því sem hann hefur að segja. Hann birtist sem æðrulaus persóna sem blöskrar eftirlitsaðgerðir stjórnvalda og hvernig þau brjóta á tjáningar- og persónufrelsi einstaklingsins. Samviska hans býður honum ekki að sitja aðgerðalaus og hann ákveður að gera eitthvað í málunum. Upptökurnar af Snowden eiga sér flestallar stað inni á hótelherbergi hans þar sem hann hefur komið sér fyrir ásamt blaðamönnum í því skyni að opinbera upplýsingar sem hann hefur komist yfir í störfum sínum fyrir Bandarísku þjóðaröryggisstofnunina. Það sem Snowden ljóstrar upp er ótrúlegra en nokkur lygasaga og sendir áhorfendur beinustu leið inn í skáldsögu George Orwell, 1984. Stóribróðir er að fylgjast með okkur öllum, alltaf, alls staðar og Snowden hefur gögnin til þess að sanna það. Að því sögðu er rétt að taka fram að myndin er engan veginn laus við dramatíseringu. Það er undirspil á köflum, þótt lítið sé. Við höfum aðalleikara, Edward Snowden, Glen Greenwald og Lauru Poitras, og þétt byggða frásagnarframvindu. Sögusviðið er alþjóðlegt, komið er við í Hong Kong, Berlín, London, Brussel, Ríó og víðar. Í raun er myndin eins og harðasti kaldastríðsdekkari, nema í stað þess að togstreitan sé milli austurs og vesturs eru átökin milli Stórabróður og mannsins á götunni, og í stað þess að barist sé um bombuna snýst allt um upplýsingaöflum. Upplýsingar eru hættulegri en sprengjuefni. Öðrum þræði fjallar myndin líka um rannsóknarblaðamennsku, um frelsi, rétt og mikilvægi þess að fjölmiðlar geti sinnt aðhaldshlutverki sínu sem fjórða vald; um mikilvægi sjálfstæðrar blaðamennsku og hversu viðkvæmir stóru fjölmiðlarnir geta verið gagnvart valdhöfum. Eins og kemur fram er hlutverk blaðamanna sem reyna að upplýsa misferli stjórnvalda í „lýðræðisríkjum“ Vesturlanda ekki áhættulaust. Poitras og Greenwald hafa til dæmis orðið fyrir ítrekuðu áreiti stjórnvalda, geta ekki ferðast til heimalands síns Bandaríkjanna og neyðast til þess að vinna eftir leynilegum leiðum með dulkóðuð gögn. Áhorfendur eru upplýstir á sama tíma og þeir eru skólaðir í þeim vinnubrögðum sem þarf að temja sér og í ljósi þess má einnig líta á myndina sem ákveðna útgáfu af byltingarbíói í anda þriðju kvikmyndarinnar. Citizenfour er áreiðanlega einhver merkasta heimildarmynd sem framleidd hefur verið. Hún er vel unnin í alla staði, margradda, þrususpennandi og breytir því hvaða augum maður lítur heiminn. Það ættu allir að sjá þessa mynd, helst tvisvar, því maður hefur alltaf gott af því að láta segja sér þegar keisarinn er ekki í fötum. Sérstaklega ef það er satt.Niðurstaða: Citizenfour er heimildarmynd sem sýnir hvernig allir borgarar hins vestræna heims eru undir sífelldu rafrænu eftirliti stjórnvalda. Hún er vel gerð og allt í senn óhugnanlegt, fræðandi og nauðsynlegt áhorf. Gagnrýni Menning Mest lesið Brostnar væntingar á Frostrósum Gagnrýni „Að horfa upp á ofbeldi er jafn mikið ofbeldi og að verða fyrir því“ Lífið Netverjar koma „bomsum“ Ingu á Bessastöðum til varnar Lífið Frægir fundu ástina 2024 Lífið „Fyrstu jólin án hans og sætið hans verður tómt“ Lífið Kolféll fyrir Amsterdam og hollenskum strák Lífið Stjörnulífið: Bikiníjól og jól í Japan Lífið Límdi fyrir munninn á öllum við borðið Lífið „Í stórgróða“ að eyða jólunum á Tene Lífið Að velja rangan maka: „Við gerum oft svo lítið úr ástarmálunum“ Áskorun Fleiri fréttir Brostnar væntingar á Frostrósum Jólakötturinn hvæsti á tónleikagesti Bríet olli vonbrigðum Helgi Björns tryllti lýðinn á 40 ára afmæli Stúlkan með nálina: Hver gerir svona kvikmynd? Ástkona njósnarans skildi eftir sig sjóðheit bréf Efni sem veldur uppköstum, yfirliðum og eilífri æsku The Bikeriders: Hvenær komum við í flugeldaverksmiðjuna!? Sjá meira
Citizenfour Leikstjórn og handrit:Laura Poitras Klipping: Matthilde Bonnefoy Aðalhlutverk: Edward Snowden, Glenn Greenwald, William Binney, Jacob Appelbaum, Ewin MacAskill Þú skalt gera þér grein fyrir að héðan í frá eru hver landamæri sem þú ferð yfir, hver einustu kaup sem þú gerir, öll símtöl sem þú átt, allir fjarskiptaturnar sem þú kannt að eiga leið hjá, allir vinir þínir, hver einasta grein sem þú skrifar, vefsíða sem þú ferð á og tölvupóstur og pakkar sem þú sendir í höndum kerfis sem er ótakmarkað í gagnaöflun sinni þrátt fyrir að varnir þess séu það ekki. Þessi orð eru fengin úr kvikmynd Potras þar sem hún vitnar í bréf sem bandaríski uppljóstrarinn Edward Snowden sendir henni áður en tökur á Citizenfour hefjast og eru lýsandi fyrir innihald myndarinnar. Þetta er heimildarmynd, en til þess að komast sem næst kviku væri líklega réttast að kalla myndina heimildartrylli. Hún er nefnilega fræðandi og ógnvekjandi í senn. Citizenfour er lokahlutinn í þríleik Poitras sem fjallar um Bandaríkin í kjölfar árásanna á tvíburaturnana 2001 og hvernig barátta Bandaríkjamanna gegn hryðjuverkum hefur orðið til þess að þeir hafa lagt ofuráherslu á eftirlit og eftirlitsaðgerðir. Alsjáin er rafrænn raunveruleiki. Flestir kannast við sögu Snowdens upp að vissu marki en það er eitt að kannast við hluti og annað að sjá virkilega hvernig þeir gerðust. Myndin er tekin upp í heimildarmyndastíl sem kallast á við franska sannleiksbíóið þar sem tökumaður lætur lítið fyrir sér fara. Þetta er eins konar fluga-á-vegg-nálgun sem hefur þau áhrif að áhorfanda finnst eins og hann sé að guða á glugga lífsins. Á stundum er upptakan lítið eitt groddaraleg líkt og um heimavídjóupptöku sé að ræða. Þysjað er snögglega inn eða út, og í stað þess að klippa á milli persóna í tvenndarskotum er hreinlega skimað snögglega á milli. Poitras vinnur á vitsmunalegan hátt úr klippingum þar sem hún sýnir fram á lygar og þversagnir ýmissa ráðamanna með skeytingunni einni saman. Það er ekki verið að eyða miklu púðri í uppstillingar, sem er ákveðin fagurfræði í sjálfu sér. Fyrir vikið er eins og heimildargildið aukist, því það sem er ekki (of) uppstillt hlýtur hreinlega að vera meira satt. Að því sögðu er einnig hægt að halda því fram að fagurfræðileg naumhyggja myndarinnar þjóni þeim tilgangi að undirstrika aðalatriðin. Það eru umfram allt upplýsingarnar sem skipta máli en ekki útlitið. Grunnur myndarinnar liggur í Snowden sjálfum og því sem hann hefur að segja. Hann birtist sem æðrulaus persóna sem blöskrar eftirlitsaðgerðir stjórnvalda og hvernig þau brjóta á tjáningar- og persónufrelsi einstaklingsins. Samviska hans býður honum ekki að sitja aðgerðalaus og hann ákveður að gera eitthvað í málunum. Upptökurnar af Snowden eiga sér flestallar stað inni á hótelherbergi hans þar sem hann hefur komið sér fyrir ásamt blaðamönnum í því skyni að opinbera upplýsingar sem hann hefur komist yfir í störfum sínum fyrir Bandarísku þjóðaröryggisstofnunina. Það sem Snowden ljóstrar upp er ótrúlegra en nokkur lygasaga og sendir áhorfendur beinustu leið inn í skáldsögu George Orwell, 1984. Stóribróðir er að fylgjast með okkur öllum, alltaf, alls staðar og Snowden hefur gögnin til þess að sanna það. Að því sögðu er rétt að taka fram að myndin er engan veginn laus við dramatíseringu. Það er undirspil á köflum, þótt lítið sé. Við höfum aðalleikara, Edward Snowden, Glen Greenwald og Lauru Poitras, og þétt byggða frásagnarframvindu. Sögusviðið er alþjóðlegt, komið er við í Hong Kong, Berlín, London, Brussel, Ríó og víðar. Í raun er myndin eins og harðasti kaldastríðsdekkari, nema í stað þess að togstreitan sé milli austurs og vesturs eru átökin milli Stórabróður og mannsins á götunni, og í stað þess að barist sé um bombuna snýst allt um upplýsingaöflum. Upplýsingar eru hættulegri en sprengjuefni. Öðrum þræði fjallar myndin líka um rannsóknarblaðamennsku, um frelsi, rétt og mikilvægi þess að fjölmiðlar geti sinnt aðhaldshlutverki sínu sem fjórða vald; um mikilvægi sjálfstæðrar blaðamennsku og hversu viðkvæmir stóru fjölmiðlarnir geta verið gagnvart valdhöfum. Eins og kemur fram er hlutverk blaðamanna sem reyna að upplýsa misferli stjórnvalda í „lýðræðisríkjum“ Vesturlanda ekki áhættulaust. Poitras og Greenwald hafa til dæmis orðið fyrir ítrekuðu áreiti stjórnvalda, geta ekki ferðast til heimalands síns Bandaríkjanna og neyðast til þess að vinna eftir leynilegum leiðum með dulkóðuð gögn. Áhorfendur eru upplýstir á sama tíma og þeir eru skólaðir í þeim vinnubrögðum sem þarf að temja sér og í ljósi þess má einnig líta á myndina sem ákveðna útgáfu af byltingarbíói í anda þriðju kvikmyndarinnar. Citizenfour er áreiðanlega einhver merkasta heimildarmynd sem framleidd hefur verið. Hún er vel unnin í alla staði, margradda, þrususpennandi og breytir því hvaða augum maður lítur heiminn. Það ættu allir að sjá þessa mynd, helst tvisvar, því maður hefur alltaf gott af því að láta segja sér þegar keisarinn er ekki í fötum. Sérstaklega ef það er satt.Niðurstaða: Citizenfour er heimildarmynd sem sýnir hvernig allir borgarar hins vestræna heims eru undir sífelldu rafrænu eftirliti stjórnvalda. Hún er vel gerð og allt í senn óhugnanlegt, fræðandi og nauðsynlegt áhorf.
Gagnrýni Menning Mest lesið Brostnar væntingar á Frostrósum Gagnrýni „Að horfa upp á ofbeldi er jafn mikið ofbeldi og að verða fyrir því“ Lífið Netverjar koma „bomsum“ Ingu á Bessastöðum til varnar Lífið Frægir fundu ástina 2024 Lífið „Fyrstu jólin án hans og sætið hans verður tómt“ Lífið Kolféll fyrir Amsterdam og hollenskum strák Lífið Stjörnulífið: Bikiníjól og jól í Japan Lífið Límdi fyrir munninn á öllum við borðið Lífið „Í stórgróða“ að eyða jólunum á Tene Lífið Að velja rangan maka: „Við gerum oft svo lítið úr ástarmálunum“ Áskorun Fleiri fréttir Brostnar væntingar á Frostrósum Jólakötturinn hvæsti á tónleikagesti Bríet olli vonbrigðum Helgi Björns tryllti lýðinn á 40 ára afmæli Stúlkan með nálina: Hver gerir svona kvikmynd? Ástkona njósnarans skildi eftir sig sjóðheit bréf Efni sem veldur uppköstum, yfirliðum og eilífri æsku The Bikeriders: Hvenær komum við í flugeldaverksmiðjuna!? Sjá meira