Skoðun

Hvað með þarfir íbúanna?

Dóra Magnúsdóttir skrifar
Dóttir mín á unglingsaldri fer yfir Grensásveginn á hverjum degi á leið til skóla, rétt eins og fjölmörg börn og ungmenni í Bústaðahverfinu en við búum við götu sem liggur að Grensávegi milli Bústaðavegar og Miklubrautar. Aksturshraði þarna hefur mælst allt að 80 km/klst. enda var gatan upphaflega lögð sem hraðbraut úr Reykjavík til Kópavogs. Mælingar hafa sýnt að gatan er of stór fyrir þá umferð sem um hana fer og því óþarfi að hafa ígildi hraðbrautar í þéttri íbúðabyggð.

Fólk hefur ýmsar skoðanir á framkvæmdinni en mikilvægt er að virða óskir íbúa hverfisins. Á fundum sem haldnir hafa verið í hverfinu undanfarin ár við undirbúning nýs aðals- og hverfisskipulags hefur skýrt komið fram að íbúar líta á mikla og hraða bílaumferð í Bústaða- og Háaleitishverfinu og í gegnum þau til helstu ókosta borgarhlutans. M.a. vegna þessara ábendinga leggur borgin nú áherslu á aðgerðir til að draga úr neikvæðum áhrifum bílaumferðar sem umlykur borgarhlutann og þverar skóla- og frístundahverfi. Mikilvægt er að þeir sem fara reglulega yfir götuna fótgangandi eða hjólandi, oftar en ekki börn og ungmenni, þurfi ekki að fara yfir ígildi hraðbrautar á hverjum degi. Hverfið verður öruggara með hægari bílaumferð.

Ég talaði nýlega fyrir þessari framkvæmd á Facebook. Vinur minn úr netheimum sagðist vera mótfallinn framkvæmdinni vegna þess að heppilegt sé að nota götuna þegar umferðin er þung á Miklubrautinni. Þannig hef ég heyrt fleiri tala sem ekki eru sáttir við framkvæmdina; að það sé fínt að nýta þennan spotta til að bruna í gegn. Hins vegar er það deginum ljósara að slíkur hraðakstur hentar ekki íbúum hverfisins.

Með framkvæmdinni fæst öruggari og vistlegri gata sem hægt verður að hjóla án þess að leggja líf og limi í hættu. Endurbættur Grensásvegur er liður í metnaðarfullu langtímaverkefni að gera Reykjavík að frábærri hjólaborg en þessi tiltekni hluti götunnar er nú stórhættulegur fyrir hjólandi umferð.

Þegar öllu er á botninn hvolft, þá hljóta það að vera óskir og þarfir íbúa hverfanna sem skipta mestu máli.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×