Skoðun

Erum við í ruglinu?

Kristín Soffía Jónsdóttir skrifar
Ég er borgarfulltrúi í Reykjavík og við í meirihlutanum í borgarstjórn berum ábyrgð á mörgum umdeildum ákvörðunum. Í tengslum við breytingar á götum erum við oft sökuð um að vera í ruglinu.

Nú er verið að skoða þann möguleika að breyta Grensásveginum milli Miklubrautar og Bústaðavegar. Hugmyndin er að fækka akreinum úr fjórum í tvær og koma fyrir hjólareinum. Tilurð þessara hugmyndar má rekja til óska frá íbúum sem kvartað hafa undan hraðri umferð á þessum götubút sem sker skóla- og frístundahverfi. Umferðartalningar sýna skýrt að ekki er þörf á fjórum akreinum þarna og sólarhringsumferð er langt undir þeim viðmiðum sem við notum.

Þessa hugmynd má gagnrýna og það er gott að fá fram gagnrýni sem vonandi og örugglega forðar okkur frá því að fara í vanhugsaða framkvæmd.

Að því sögðu þá held ég að við verðum að staldra við og hugsa, hvað er vanhugsuð eða misheppnuð framkvæmd og hvað er velheppnuð framkvæmd?

Í umræðunni um Grensásveginn hafa þær breytingar sem gerðar voru í Borgartúninu nokkuð oft verið nefndar og það sem hefur stungið mig er þegar bent er á Borgartúnið sem víti til varnaðar og Borgartúnið dæmt misheppnað.

Ég er nefnilega á því að Borgartúnið hafi heppnast mjög vel. Öll þau markmið sem farið var af stað með hafa náðst.

Strætófarþegum hefur fjölgað um 17% í götunni – mesta aukning í öllu strætókerfinu. Hjólandi hefur fjölgað um 220% – sem er algjör sprenging og langt umfram meðaltalið í borginni. Fótgangandi í nágrenninu hefur fjölgað úr 19% í 23% og umferðaröryggi er stórbætt. Ekki hafa orðið slys á gangandi eða hjólandi en slíkt var nær árlegur viðburður fyrir breytingar.

Umferð einkabíla er nokkuð svipuð og áður, ný bankaútibú hafa opnað sem og nýtt kaffihús sem slegið hefur í gegn. Óhætt er að segja að gatan blómstri.

Ég segi því – vonandi munu breytingar á Grensásvegi skila okkur svipuðum árangri og breytingarnar í Borgartúni.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×